28. mars 2022
28. mars 2022
Inflúensa er í vexti á Íslandi
Veturinn 2021–2022 hafa 230 inflúensutilfelli greinst hérlendis, þar af um 200 á síðustu þremur vikum. Auk þess hafa 292 tilfelli verið greind vegna einkenna án rannsóknar. Fáir hafa verið lagðir inn á Landspítala vegna inflúensu það sem af er ári eða 10 manns undanfarnar þrjár vikur.
Faraldurinn fer mun seinna af stað í ár heldur en í meðalári. Hins vegar greindust engin tilfelli í veturinn 2020–2021. Flest staðfestra tilfella í vetur eru einstaklingar yngri en 15 ára en miðað við aldur eru hlutfallslega flest tilfelli fólk 65 ára og eldri. Langflest tilfelli eru inflúensutegund A, H3. Ekkert tilfelli hefur greinst af tegund B.
Bólusetning er mikilvæg leið til að draga úr alvarleika inflúensu, sérstaklega hjá áhættuhópum. Því er rétt að minna á að bóluefni gegn inflúensu er enn til í landinu og heilsugæslur og aðrir sem bólusetja gegn inflúensu geta pantað það hjá Distica. Ekki er vitað hversu árangursrík bólusetningin er til að koma í veg fyrir smit en virknin er venjulega 30–70%. Jafnvel þó að bóluefnin komi ekki í veg fyrir sýkingu þá geta þau komið í veg fyrir alvarleg veikindi.
Hvatt er til að hefja meðferð með veirulyfinu Tamiflu (oseltamivir) án þess að inflúensugreining sé staðfest skv. eftirfarandi viðmiðum:
Inflúensulík einkenni til staðar og hafa ekki staðið lengur en 48 klst.
Hraðpróf m.t.t. COVID-19 er neikvætt.
Áhættuþættir fyrir alvarlegum inflúensuveikindum til staðar (á einnig við heimilisfólk einstaklinga með áhættuþætti)
60 ára og eldri
Langvinnir sjúkdómar sem leggjast á lungu, hjarta, nýru eða lifur, sykursýki, illkynja sjúkdómar, aðrir ónæmisbælandi sjúkdómar eða meðferðir.
Mælt er með að staðfesta greiningu með því að senda sýni í rannsókn þó meðferð hefjist ef viðkomandi leggst inn á heilbrigðisstofnun vegna veikindanna eða ef áhættuþættir eru til staðar.
Einkenni inflúensu eru yfirleitt hár hiti, beinverkir, hálssærindi, hósti og nefrennsli. Þau koma fram um 2–4 dögum eftir smit. Venjulega er fólk smitandi nokkrum klst. áður en einkenni koma fram og í allt að 5–7 daga eftir að einkenni byrja.
Minnum á að einstaklingsbundnar sóttvarnir s.s. handhreinsun, grímur, mæta ekki til vinnu eða í fjölmenni með einkenni draga úr dreifingu og smithættu vegna inflúensu.
Sóttvarnalæknir