5. maí 2024
5. maí 2024
Hreinar hendur hindra smit – Alþjóðahandþvottadagurinn 5. maí
Um langt árabil hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) notað 5. maí til að vekja athygli á mikilvægi handhreinsunar, einkum við heilbrigðisþjónustu.
Verkefnið SAVE LIVES: Clean Your Hands sem mætti kalla Hreinar hendur hindra smit er alþjóðlegt átaksverkefni undir forystu WHO til að styðja heilbrigðisstarfsmenn til að efla handhreinsun í heilbrigðisþjónustu. Handhreinsun er mikilvægur líður í þvi að fyrirbyggja sýkingar sem tengjast heilbrigðisþjónustu og geta valdið fylgikvillum og dauðsföllum. Heilbrigðisstofnanir geta orðið aðilar að verkefninu með því að skrá sig til þátttöku.
Handhreinsun við veitingu heilbrigðisþjónustu er afar mikilvæg og stöðugt þarf að ítreka mikilvægi þess að heilbrigðisstarfsfólk þvoi og/eða spritti hendur sínar fyrir snertingu við hrein áhöld og skjólstæðinga og eftir að þjónusta er veitt.
Mikilvægasta sýkingavörnin
Handhreinsun með handþvotti með vatni og sápu er langmikilvægasta sýkingavörnin í okkar daglega lífi því bein og óbein snerting er algengasta smitleið sýkla milli manna.
Mikilvægt er að hendur séu þvegnar:
Áður en hafist er handa við matreiðslu
Fyrir og eftir máltíðir
Eftir salernisferðir
Eftir beina snertingu við sár, blóð og hvers kyns líkamsvessa
Eftir bleiuskipti á barni
Eftir snertingu við dýr
Í nýafstöðnum heimsfaraldri COVID-19 var mikið fjallað um mikilvægi handhreinsunar. Segja má að orðið hafi almenn vitundarvakning í þeim efnum og mörg fyrirtæki hófu að bjóða upp á handspritt fyrir viðskiptavini. Samhliða jókst notkun hlífðarhanska sem nú er orðin algengari við ýmis störf.
Hlífðarhanskar
Hlífðarhanskar eru í flestum tilfellum framleiddir sem einnota hanskar til að verja hendur mikilli mengun við óhreint verk. Fjarlægja skal hanska að verki loknu og hreinsa hendur með handþvotti eða handsprittun. Hanskar eru ekki ætlaðir til notkunar á milli verka, hreinna og óhreinna, því þeir geta borið óhreinindi og sýkla rétt eins og hendur. Það er því varhugavert og veitir falska vörn að ganga stöðugt með hanska í stað þess að rjúfa smitleiðir með handþvotti og eða handsprittun.
Sóttvarnalæknir