Fara beint í efnið

23. október 2024

Hópsýking af völdum E. coli á leikskóla í Reykjavík

Tíu börn sem sækja leikskólann Mánagarð í Vesturbæ Reykjavíkur hafa greinst með iðrasýkingu af völdum eiturmyndandi Escherichia coli sýkils sem kallað er STEC (shiga-toxínmyndandi E. coli), sem getur valdið blóðugum niðurgangi.

EL. Mynd með frétt. E. coli og leikskólabörn

Smitin greindust með PCR-prófum á saursýnum en beðið er eftir niðurstöðum sýklaræktana á sýkla- og veirufræðideild Landspítala til staðfestingar. Nokkra daga tekur að fá niðurstöður úr ræktunum. Rúmlega hundrað börn sækja leikskólann.

Einkenni barnanna hafa verið misalvarleg að því virðist en helst niðurgangur og blóðugur niðurgangur. Í morgun lágu fjögur barnanna á Barnaspítala Hringsins og önnur fjögur voru á bráðadeild Barnaspítalans til frekara mats og rannsókna. Eitt barnanna er alvarlega veikt á gjörgæsludeild. Leikskólanum Mánagarði hefur verið lokað tímabundið út vikuna á meðan málið er rannsakað.

Rannsókn á uppruna sýkingar og aðgerðir

Stýrihópur með fulltrúum sóttvarnalæknis, umdæmislæknis sóttvarna á höfuðborgarsvæðinu, heilbrigðiseftirlits, Matvælastofnunar, MATÍS og læknum sýklafræðideildar Landspítala funduðu í morgun til að skipuleggja rannsókn á uppruna sýkinganna og til að ákveða næstu skref til að draga úr frekari útbreiðslu. Enn sem komið er hefur ekki fengist staðfesting á uppruna sýkinganna en líklegur uppruni er frá matvælum. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fer með rannsókn á matvælum sem tengjast þessu máli og er leikskólanum til ráðgjafar varðandi þrif og fleira.

E. coli iðrasýking

STEC sýking flokkast til súna (á ensku zoonosis), en súnur eru sýkingar sem geta borist á milli manna og dýra. Jórturdýr, einna helst nautgripir, eru hýslar fyrir STEC. Helsta smitleiðin í menn er með menguðum matvælum og vatni en einnig getur beint smit manna á milli átt sér stað, þá einna helst hjá litlum börnum. Matarsýkingar eru oft tengdar illa elduðum afurðum nautgripa eins og hamborgurum og ógerilsneyddri mjólk og afurðum hennar, en fleiri gerðir matvæla hafa þó tengst STEC hópsýkingum.

STEC er E. coli baktería sem framleiðir ákveðið eiturefni (toxín) sem veldur skaðlegum einkennum sýkingarinnar. Einkenni geta verið mismikil og smitaður einstaklingur getur verið einkennalaus. Helsta einkenni er niðurgangur, stundum blóðugur, en einnig geta fylgt kviðverkir og/eða uppköst.

Alvarlegur fylgikvilli STEC er rauðkornasundrunar- og nýrnabilunarheilkenni (á ensku hemolytic uremic syndrome; HUS), sem kemur oftar fyrir hjá börnum en fullorðnum (um 6–10% barna yngri en 10 ára). Helstu einkenni HUS eru nýrnabilun, blóðfrumufæð og fækkun á blóðflögum, sem getur leitt til blæðinga. Í alvarlegum tilvikum getur sérhæfð meðferð vegna nýrnabilunar reynst nauðsynleg.

Ráðgjöf til fjölskyldna

Leiðbeiningar til foreldra barna vegna iðrasýkingar af völdum E. coli (STEC) eru m.a.:

  • Ef barn er algjörlega einkennalaust þá má það gera allt eins og venjulega. Passa þarf vel handþvott og almennt hreinlæti sérstaklega kringum bleiuskifti ef það á við. Góð regla er að þvo alltaf hendur vel fyrir og eftir mat.

  • Ef barn er með lítil eða væg einkenni iðrasýkingar þá skal hafa samband við upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar í síma 1700 til að fá frekari leiðbeiningar. Mikilvægt er að barnið drekki vel.

  • Ef barn er með mikil einkenni iðrasýkingar svo sem svæsinn niðurgang eða blóðugan niðurgang, uppköst eða kviðverki eða er slappt og meðtekið þá hafa samband við bráðamóttöku barna á Landspítala.

Sóttvarnalæknir

Ítarefni: