Fara beint í efnið

16. mars 2022

Greinargerð um bið eftir völdum skurðaðgerðum komin út

Embætti landlæknis hefur birt greinargerð um bið eftir völdum skurðaðgerðum.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Embætti landlæknis hefur birt greinargerð um bið eftir völdum skurðaðgerðum. Ekki var um hefðbundið árferði að ræða í heilbrigðisþjónustu árið 2021, frekar en árið 2020, vegna áhrifa COVID-19 heimsfaraldursins. Samanburður milli ára er því vandasamur og taka verður tillit til þess við túlkun niðurstaðna.

Áhyggjuefni er að þann 1. janúar 2022 var bið eftir skurðaðgerð orðin lengri en sem nemur viðmiði embættis landlæknis um ásættanlega bið eftir heilbrigðisþjónustu. Þ.e. að 80% komist í aðgerð innan 3 mánaða, í 13 af 18 aðgerðaflokkum, sem voru til skoðunar. Skurðaðgerðir, sem framkvæmdar eru vegna lífsógnandi sjúkdóma og metnar voru í brýnustum forgangi, innan viku og innan fjögurra vikna, voru þó framkvæmdar innan þess tíma að mestu leyti, ef frá eru taldar brennsluaðgerðir á hjarta. Ljóst er að heimsfaraldur COVID-19 hefur haft veruleg áhrif á bið eftir völdum skurðaðgerðum. Þótt áhrifanna hafi sérstaklega gætt árið 2020, þegar aðgerðir sem gátu beðið voru ekki framkvæmdar á tímabili, gætti áhrifa faraldursins líka á árinu 2021. Færri aðgerðir voru til að mynda skipulagðar um tíma vegna álags á heilbrigðisstofnunum.

Að mati landlæknis er brýnt að fjölga skurðaðgerðum á augasteini til að anna þeirri þörf sem er til staðar og ná aftur viðmiðum um ásættanlega bið, en biðtími hefur lengst mikið frá árinu 2019. Fjöldi liðskiptaaðgerða hefur aukist síðustu ár og voru 324 fleiri aðgerðir gerðar árið 2021 en árið áður. Þrátt fyrir þessa aukningu á fjölda aðgerða er biðtími enn langt umfram viðmið og fjölga þyrfti liðskiptaaðgerðum enn meira til þess að stytta bið. Síðustu ár hefur eftirspurn eftir skurðaðgerðum vegna offitu aukist. Þessar aðgerðir hafa verið framkvæmdar á Landspítala, 60 aðgerðir árið 2020 og 93 árið 2021, en að mestu leyti á Klíníkinni undanfarin ár, eða um 500 aðgerðir árið 2020. Biðin á Landspítala hefur lengst þrátt fyrir aukinn fjölda aðgerða og er langt umfram viðmið en ekki bárust upplýsingar frá Klíníkinni um þennan aðgerðaflokk og því er ekki hægt að meta stöðuna. Vaxandi fjöldi Íslendinga glímir við offitu og því er mikilvægt að fylgjast vel með aðgengi að slíkum aðgerðum. Landlæknir ítrekar fyrri ráðleggingar um að brýnt er uppfæra og innleiða aðgerðaráætlun til að draga úr tíðni offitu og þar sem bæði er hugað að forvörnum og meðferð.

Eins og áður hefur verið bent á er brýnt að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað. Þau rými sem opin eru á Landspítala þarf að nýta fyrir einstaklinga sem þurfa á sérhæfðri heilbrigðisþjónustu á hátæknisjúkrahúsi að halda. Að sama skapi er mikilvægt að einstaklingar sem eru í þörf fyrir varanlegt úrræði fái það sem fyrst. Að öðrum kosti kemur það niður á getu Landspítala til að framkvæma skurðaðgerðir. Áhyggjuefni er að fresta hefur þurft hjartaskurðaðgerðum á Landspítala vegna skorts á legurými á gjörgæsludeild. Landlæknir ítrekar í því samhengi fyrri ráðleggingar um að brýnt er að fjölga gjörgæsluplássum á Landspítala.

Að mati embættis landlæknis er mikilvægt að fylgjast áfram með þróun mála og meta stöðuna svo hægt sé að gera viðeigandi breytingar. Leggja þarf áherslu á að koma starfseminni í fulla virkni eins fljótt og hægt er og auka aðgerðafjölda til muna þegar áhrif COVID-19 faraldursins dvína, svo stytta megi biðtíma. Þá gefur mismunandi biðtími eftir aðgerð milli aðgerðastaða tilefni til þess að efla enn frekar samstarf á milli sjúkrahúsa.

Nánar um bið eftir heilbrigðisþjónustu.

Fyrirspurnum vegna greinargerðarinnar skal beina til
Kjartans Hreins Njálssonar
aðstoðarmanns landlæknis
Netfang: kjartanh@landlaeknir.is
Sími: 510-19