Fara beint í efnið

7. september 2022

Göngum í skólann 2022 sett í Melaskóla

Alþjóðlega verkefnið Göngum í skólann hófst formlega í Melaskóla miðvikudaginn 7. september.

Hópmynd frá setningu Göngum í skólann 2022 í Melaskóla

Alþjóðlega verkefnið Göngum í skólann hófst formlega í Melaskóla miðvikudaginn 7. september. Viðstaddir voru stjórnendur og annað starfsfólk skólans, nemendum í 3. og 4. bekk, heilbrigðisráðherra, innviðaráðherra, ríkislögreglustjóri, framkvæmdastjóri ÍSÍ og aðrir fulltrúar aðstandenda verkefnisins. Eftir stutt erindi, söng og skemmtileg töfrabrögð var verkefnið formlega sett af stað með göngu viðstaddra um nánasta umhverfi skólans.  

Meginmarkmið Göngum í skólann er að hvetja nemendur og foreldra til að ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta, hvetja til aukinnar hreyfingar og að fræða börn um fjölþætt gildi reglulegrar hreyfingar. Miðað er að því að auka færni barna til að ganga og hjóla á öruggan hátt í skóla og að bæta aðstæður til þess að nota slíkan ferðamáta. Ávinningurinn er m.a. aukin hreyfing, bætt loftgæði og almennt betri heilsa fólks og jarðarinnar. 

Göngum í skólann hófst í Bretlandi árið 2000 og er þetta í 16. sinn sem Ísland tekur þátt. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur fyrir verkefninu í samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið, embætti landlæknis, Ríkislögreglustjóra, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Samgöngustofu og Landssamtökin Heimili og skóla.

Á Íslandi er septembermánuður helgaður verkefninu og því lýkur á alþjóðlega Göngum í skólann daginn þann 5. október. Hér á landi hefur skráning skóla farið vel af stað og er auðvelt er fyrir nýja skóla að bætast í hópinn. Allar nánari upplýsingar um Göngum í skólann eru á vefsíðu verkefnisins, www.gongumiskolann.is

Gígja Gunnarsdóttir
verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags og hreyfingar