Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

21. nóvember 2025

Geðheilsa sem grunnur að árangursríkri stefnumótun – vinnustofa með stefnumótendum

Rafræn vinnustofa um geðheilsu sem grunn að árangursríkri stefnumótun var haldin á vegum embættis landlæknis þann 29. október síðastliðinn með þátttöku fulltrúa frá ráðuneytum, sveitarfélögum, heilbrigðisþjónustu og félagasamtökum.

Vinnustofan var haldin í tengslum við evrópska samstarfsverkefnið JA PreventNCD með það að markmiði að skoða hvernig geðrækt og geðheilsa geti orðið hluti af allri stefnumótun stjórnvalda og skipulagi opinberrar þjónustu á Íslandi – svokölluð Mental Health in All Policies (MHiAP) nálgun. Fundarstjóri var Sigrún Þóra Sveinsdóttir, sérfræðingur í geðrækt á lýðheilsusviði embættis landlæknis.

Mikilvægi geðræktar í stefnumótun þvert á kerfi

Á vinnustofunni héldu sérfræðingar erindi um mikilvægi þverfaglegrar samvinnu og stefnumótunar þvert á kerfi.

Ingibjörg Sveinsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu og ráðgjafi hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni í Evrópu, lagði áherslu á að markviss geðrækt þurfi að vera hluti af stefnumótunarferli ráðuneyta og sveitarfélaga. Í máli hennar kom meðal annars fram:

„Geðheilsa verður ekki tryggð af heilbrigðiskerfinu einu saman. Hún verður til í samfélaginu – í menntakerfinu, í húsnæðismálum, í atvinnulífinu og í daglegu lífi fólks.“

Soile Ridanpää, sérfræðingur hjá finnska félags- og heilbrigðisráðuneytinu, kynnti hvernig Finnland hefur samþætt geðheilbrigði inn í stefnumótun ríkisins með sérstakri ríkisstjórnarákvörðun og samræmdri aðgerðaáætlun allra ráðuneyta til ársins 2030.

Sigrún Daníelsdóttir, teymisstjóri geðræktar á lýðheilsusviði embættis landlæknis, greindi frá niðurstöðum stöðugreiningar um hvernig áhersla á geðrækt og geðheilsu birtist í stefnumótun á Íslandi sem unnin var í tengslum við verkefnið JA PreventNCD. Hún greindi einnig frá næstu skrefum sem meðal annars fela í sér innleiðingu MhiAP-nálgunarinnar í íslenskri stjórnsýslu í tengslum við evrópska samstarfsverkefnið JA MENTOR.

Skýr framtíðarsýn þátttakenda

Undir lok vinnustofunnar fóru fram hópumræður þar sem kom fram sterk framtíðarsýn:

Ef geðheilsa væri hluti allrar stefnumótunar á Íslandi myndi samfélagið færast frá viðbrögðum yfir í forvarnir.

Þátttakendur lögðu meðal annars áherslu á:

  • markvissa geðrækt og eflingu seiglu í skólakerfinu,

  • snemmtæka íhlutun og stuðning við foreldra,

  • sveigjanleika í vinnumarkaði og samhæfða þjónustu sveitarfélaga,

  • að draga úr sílóhugsun milli geira og ráðuneyta,

  • að endurskoða netumhverfi barna,

  • að efla geðrækt hjá lögreglu og opinberum aðilum,

  • að framlengja velferðarþjónustu og stuðningskerfi fyrir ungmenni fram yfir 18 ára aldur.

Frekari upplýsingar
Sigrún Daníelsdóttir, teymisstjóri geðræktar
Sigrún Þóra Sveinsdóttir, sérfræðingur í geðrækt