Fara beint í efnið

31. ágúst 2023

Fréttabréf ágúst 2023

Fréttabréf Stafræns Íslands ágúst 2023.

islandis_grafik_skrifstofa

Stafræn þjónusta eykur afköst

Síðustu misseri hefur fjöldi stofnana tekið stór stökk í að bæta þjónustu sína með stafvæðingu. Þróunin er hröð, mikið breyst á tiltölulega stuttum tíma og kröfur notenda aukast jafnvel enn hraðar. Það er hvetjandi að ná að halda í við þær væntingar sem til hins opinbera eru gerðar og segja frá jákvæðum áhrifum stafvæðingar.

Meðfylgjandi mynd er frá nýlegum blaðamannafundi fjármála- og efnahagsráðherra þar sem hann fór meðal annars yfir þann ávinning sem kemur af stafvæðingu þjónustu. Það þótti eitt sinn ógerlegt að bæta þjónustu, spara tíma fólks, hagræða og hafa jákvæð umhverfisáhrif allt í einum rykk. Við erum þó að sjá þetta raungerast með stafvæðingu þjónustu.

Stafræn þjónusta eykur afköst

Tengjum ríkið ráðstefna - forskráning

Tengjum-rikid-vefbordar Vefur-1200x630

Forskráning á Tengjum ríkið er í fullum gangi en í byrjun september verða sendar út ítarupplýsingar um dagskrá. Þegar hafa hátt í 400 manns skráð sig og áhuginn mikill.

Tengjum ríkið er árleg ráðstefna Stafræns Íslands þar sem stafræn framtíð hins opinbera er umfjöllunarefnið. Ráðstefnan fer fram þann 22. september frá 12.30-17 bæði í Hörpu og í streymi.

Yfirskrift ráðstefnunnar er Stafrænt samfélag og skiptist í undirþemun Stafræn forysta, Stafrænt Ísland og Stafrænt öryggi. Ráðstefnan í ár er haldin í samstarfi við fund Norrænu ráðherranefndarinnar þar sem Ísland fer með formennsku.

Tengjum ríkið - forskráning


Barbados

Sá árangur sem Ísland hefur náð í stafrænni opinberri þjónustu undanfarin ár vekur athygli víða um heim en í sumar kom sendinefnd frá Barbados í námsferð til Stafræns Íslands.

Malta

Þá kom sendiherra Möltu í heimsókn til Stafræns Íslands í vor en tilgangur heimsóknarinnar var að koma á tengslum millli þjóðanna. Í samskiptum og samvinnu Möltu og Íslands liggja mikil tækifæri en Malta hefur náð miklum árangri í stafvæðingu opinberrar þjónustu á ýmsum sviðum.

Barbados-Malta

Óskalisti þjóðarinnar

Notendur eru settir í fyrsta sæti í öllum verkefnum sem Stafrænt Ísland tekur að sér. Til að kalla eftir endurgjöf er búið að setja upp Óskalista þjóðarinnar þar sem notendur geta sent inn og kosið um tillögur sem þeim þykir mikilvægar. Óskalistinn er leið til að hafa áhrif á forgangsröðun verkefna hjá Stafrænu Íslandi.

Óskalisti þjóðarinnar


Þarftu dvalarleyfi á Íslandi?

Þeir sem hyggjast flytja til Íslands í lengri eða skemmri tíma, til dæmis vegna náms eða vinnu, gætu þurft að sækja um dvalarleyfi. Til að koma til móts við þarfir þessa hóps hefur Útlendingastofnun stillt upp einfaldri sjálfsafgreiðslulausn sem styttir afgreiðslutíma og bætir upplýsingagjöf.

Þarftu dvalarleyfi?


Heilsa á Mínum síðum Ísland.is

Sífellt bætir í aðgengi almennings að eigin upplýsingum á Mínum síðum Ísland.is. Nýjasta viðbótin er aðgengi að upplýsingum um heilsugæslu og tannlækna undir flokknum Heilsa. Þá er unnið að skráningaleið fyrir þá sem vilja til dæmis skipta um heilsugæslu eða skrá heimilistannlækni fyrir börn.


Vinnuvélar á Mínum síðum Ísland.is

Vinnuvélar eru nýjasta viðbótin við flokkinn Ökutæki á Mínum síðum Ísland.is. Þar miðlar vinnueftirlitið upplýsingum um vinnuvélar til vinnuvélaeigenda.


Ísland leiðtogi í stafrænni þjónustu?

Andri Heiðar Kristinsson framkvæmdastjóri Stafræns Íslands og Vigdís Jóhannsdóttir markaðsstjóri Stafræns Íslands ræddu stafræna opinbera þjónustu og tækifæri Íslands í að vera leiðandi á heimsvísu á þeim vettvangi í Gagnarökum.

Podcast um stafræna þjónustu


Meðal verkefna Stafræns Íslands:

  • Ákvörðun um skipti dánarbús

  • Eigendaskipti vinnuvéla og tækja

  • Endurnýjun ökuréttinda

  • Ísland.is app - fjármál

  • Mínar síður: Fjármál, hreyfingar á tímabilinu

  • Mínar síður: Heilsugæsla og tannlæknar ítrun

  • Mínar síður: Hugverkaréttindin mín

  • Mínar síður: Námsyfirlit úr INNU

  • Mínar síður: Starfsleyfi heilbrigðisstarfsfólks

  • Rafræn erfðafjárskýrsla

  • Mínar síður: Upplýsingar um lifjakaup og lyfjaskírteini

  • Rafræn þinglýsing á kaupsamningum fasteigna

  • Samráðsgátt - uppfært notendaviðmót

  • Staðfesting stafrænna ökuskírteina hjá Vínbúðunum

  • Stafrænt veiðikort

  • Tilkynning um vinnuslys

  • Umsón um dvalarleyfi

  • Umsókn um endurnýjun dvalarleyfa ítrun

  • Umsókn um ellilífeyri

  • Umsókn um fæðingarorlof: Varanlegt fóstur og dvalarstyrkur

  • Umsókn um háskóla

  • Umsókn um ríkisborgararétt ítrun

  • Umsókn um sannvottun

  • Umsókn um vegabréf

  • Umsókn um ökuritakort

  • Upplýsingavefur um háskólanám á Íslandi

  • Vefur gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála

  • Vefur Náttúruhamfaratrygginga á Ísland.is

  • Vefur Réttindagæslu fyrir fatlað fólk á Ísland.is

  • Vefur Samgöngustofu á Ísland.is

  • Vefur Tryggingastofnunar á Ísland.is

  • Vefur Vinnueftirlitsins á Ísland.is