27. september 2024
27. september 2024
Fjölmenni á Tengjum ríkið 2024
Fjölmenni var á Tengjum ríkið sem fór fram þann 26.september á Hilton Nordica sem og í streymi.
Mikill áhugi var á ráðstefnunni í ár sem bar yfirskrift ráðstefnunnar í ár er breytingastjórnun með sérstaka áherslu á innleiðingu stafrænnar þjónustu og ferla. Um 500 manns sóttu ráðstefnuna og um 150 fylgdust með í streymi. Dave Rogers, Liz Whitfield og Sara Bowley voru lykilfyrirlesarar ráðstefnunnar í ár en þau hafa öll tekið þátt í og náð frábærum árangri í ólíkum og stórum stafrænum umbreytingaverkefnum í bresku stjórnsýslunni.
Þá var fjöldi áhugaverðra erinda frá stofnunum sem hafa náð góðum árangri í stafrænni vegferð og stafrænni þjónustu. Þar á meðal eru erindi frá Samgöngustofu, Sjúkratryggingum, TR, Vinnueftirlitinu og frá verkefninu Fyrir Grindavík þar sem farið var yfir þær kjarnaþjónustur sem viðbragðsaðilar gátu nýtt sér hjá Stafrænu Íslandi.
Dagskrá ráðstefnunnar lauk með Stafrænum skrefum stofnana þar sem veittar voru viðurkenningar til þeirra stofnana sem hafa tekið stafræn stökk á árinu í samstarfi við Stafrænt Ísland. Samgöngustofa og Sjúkratryggingar voru kallaðar á svið með fullt hús stiga eða 9 skref en fyrir höfðu sýslumenn náð þeim árangri. Einnig voru veittar viðurkenningar þeim stofnunum sem hafa náð 7 og 8 skrefum. Nánar má lesa um viðurkenningarhafa ársins í ár í frétt um Stafrænu skref stofnana 2024.
Að morgni ráðstefnudags voru haldnar fjórar vinnustofur sem snéru að þjónustu, tækniumhverfi og þróun, Ísland.is og ávinningi stafrænna verkefna. Vinnustofurnar voru afar vel sóttar og mikilvægt innlegg inn í þá stafrænu þróun sem er framundan næstu misserin.
Tengjum ríkið er árleg ráðstefna Stafræns Íslands þar sem stafræn framtíð hins opinbera er umfjöllunarefnið. Lesa má nánar um ráðstefnuna og vinnustofurnar á vef Stafrænt Íslands.