15. mars 2022
15. mars 2022
Embætti landlæknis birtir skýrslu um úttekt á bráðaþjónustu á BUGL
Gerð var úttekt á bráðaþjónustu barna- og unglingageðdeildar Landspítala (BUGL) að frumkvæði embættis landlæknis.
Samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu ber embætti landlæknis að fylgjast með gæðum og öryggi heilbrigðisþjónustunnar og stuðla að umbótum.
Gerð var úttekt á bráðaþjónustu barna- og unglingageðdeildar Landspítala (BUGL) að frumkvæði embættis landlæknis. Tilefni úttektarinnar var meðal annars skýrslan Fókus á börn og ungt fólk – Fyrsta áfangaskýrsla stýrihóps sem vaktar óbein áhrif COVID-19 á geðheilsu þar sem m.a. komu fram áhyggjur af líðan barna og fjölskyldna þeirra, hve erfitt sé að fá viðeigandi þjónustu og bráðakomum á BUGL svo og bráðainnlögnum hafi fjölgað töluvert.
Úttektin tók til atriða er varða stefnumörkun, stjórnun, þjónustu, starfshætti, gæðastarf, öryggis-menningu og mönnun. Embættið þakkar stjórnendum og starfsfólki BUGL góða samvinnu við úttektina.
Um mat embættis landlæknis á bráðaþjónustu BUGL má segja að það sé mikið áhyggjuefni að börnum sem þurfa á bráðaþjónustu BUGL að halda, hefur fjölgað umtalsvert eða um 25% frá árinu 2019 til loka árs 2021. Vísbendingar eru einnig um að málin séu alvarlegri og verkefni bráðaþjónustu BUGL þannig viðameiri og flóknari en áður. Áhyggjuefni er að álagið á BUGL hefur aukist og erfiðara er að færa ábyrgð meðferðar/eftirfylgdar yfir á bæði fyrsta og annað þjónustustig heilbrigðiskerfisins þrátt fyrir að bráður vandi barnsins sé yfirstaðinn. Langvarandi álag á starfsfólk og starfsmannavelta á BUGL getur að mati embætti landlæknis orðið til þess að erfitt verður að hafa yfirsýn, halda skipulagi og hætta er á að gæði þjónustunnar verði minni.
Embættið kemur með margvíslegar ábendingar um starfsemi, en þær má nálgast í skýrslunni hér. Ljóst er að sum atriði í mati embættis landlæknis, sem t.d. lúta að heildarskipulagi geðheilbrigðisþjónustu barna, eru víðtækari en svo að hægt sé að beina þeim til stjórnenda BUGL. Brýnt er að allir hagaðilar komi að vinnu að frekari úrbótum í skipulagi og forgangsröðun innan geðheilbrigðisþjónustu barna.
Nánari upplýsingar veitir:
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartanh@landlaeknir.is.
Landlæknir