21. febrúar 2024
21. febrúar 2024
Ellefu milljarðar til lýðheilsumála í Evrópu og 800 milljónir til Íslands
Hæsti styrkur sem Evrópusambandið hefur veitt til lýðheilsumála.
Heilbrigðisáætlun Evrópusambandsins veitti nýverið stærsta styrk sem veittur hefur verið til lýðheilsumála frá upphafi eða um 11 milljörðum og þar af um 800 milljónum til Íslands. Markmiðið með verkefninu er að vinna að forvörnum gegn krabbameinum og öðrum ósmitbærum sjúkdómum.
JA PreventNCD
Verkefnið nefnist JA PreventNCD (Joint Action Prevent Non-Communicable Diseases) og var hleypt af stokkunum í byrjun árs og stendur yfir í fjögur ár. Meginmarkmið verkefnisins er að innleiða árangursríkar aðgerðir til að koma í veg fyrir ósmitbæra sjúkdóma, eins og krabbamein, sykursýki og hjarta- og æðasjúkdóma. Helstu áhættuþættir ósmitbærra sjúkdóma eru óhollt mataræði, reykingar, áfengisneysla, hreyfingarleysi og geðheilbrigðisvandamál.
Lýðheilsusvið embættis landlæknis hefur leitt þátttöku Íslands í undirbúningi verkefnisins. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðstjóri, stýrir verkþætti um velsældarhagkerfi og Sólveig Karlsdóttir, verkefnastjóri, stýrir verkþætti um miðlun upplýsinga fyrir allt verkefnið. Við undirbúning þátttöku Íslands var valið sérstaklega að taka þátt í þeim verkþáttum sem samræmast markmiðum embættis landlæknis og styrkja sem best lýðheilsustarf á Íslandi. Starfsfólk lýðheilsusviðs tekur allt þátt í verkefninu.
Lýðheilsusvið leiðir þátttöku Íslands en forsætisráðuneyti, Landspítali og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins taka einnig þátt
Alls taka 22 aðildarríki Evrópusambandsins þátt í verkefninu ásamt Íslandi, Noregi og Úkraínu. Sem fyrr segir leiðir lýðheilsusvið embættis landlæknis þátttöku Íslands í verkefninu en forsætisráðuneytið, Landspítali og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins koma einnig að verkefninu. Verkefnið er fjármagnað sameiginlega af þátttakendum og EU4Health, heilbrigðisáætlun Evrópusambandsins. Heildarkostnaður verkefnisins er 95,5 milljónir evra, þar af koma 76,5 milljónir evra frá Evrópusambandinu. Krabbameinsforvarnir eru í forgangi hjá Evrópusambandinu og undirstrikar sú fjárhæð sem sambandið leggur í þetta verkefni þá áherslu.
Ósmitbærir sjúkdómar valda um 80% af allri sjúkdómsbyrði í Evrópu, draga verulega úr lífsgæðum fólks og eru stærsti hluti heilbrigðisútgjalda innan Evrópusambandsins. Þessir sjúkdómar kosta hagkerfi þeirra um 115 milljarða evra árlega eða sem samsvarar 0,8% af landsframleiðslu. Við það bætist annar samfélagslegur kostnaður, svo sem tap í framleiðni, á vinnuafli, kostnaði við umönnun og almannatryggingar.
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs embættis landlæknis: "Það er því til mikils að vinna og með því að sameina krafta okkur vonumst við eftir því að það skili sér í auknum jöfnuði, heilbrigði og velsæld í Evrópu."
Frekari upplýsingar
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, dora.g.gudmundsdottir@landlaeknir.is
Sólveig Karlsdóttir, solveig.karlsdottir@landlaeknir.is
Elín Hirst, elin.hirst@landlaeknir.is