1. mars 2023
1. mars 2023
Dánartíðni eftir tímabilum og umframdánartíðni - tölfræði
Embætti landlæknis hefur sett fram upplýsingar um umframdánartíðni og COVID-19 andlát í sérstöku mælaborði sem er aðgengilegt á vef embættisins.
Embætti landlæknis hefur fylgst náið með dánartíðni allt frá því faraldur af völdum COVID-19 hófst. Tilgangurinn er m.a. sá að meta hvort og að hve miklu leyti dánartíðni var frábrugðin því sem við mátti búast miðað við meðaltal undangenginna ára. Embætti landlæknis hefur sett fram upplýsingar um dánartíðni í sérstöku mælaborði sem nú er aðgengilegt á vef embættisins. Er það gert til þess að sporna við upplýsingaóreiðu sem hefur skapast í kjölfar mánaðarlegra birtinga evrópsku hagstofunnar, Eurostat, á tölum sem oft hafa ekki reynst réttar. Það á sér þó skýringar sem nánar er gert grein fyrir hér að neðan.
Nýtt mælaborð - umframdánartíðni og COVID-19 andlát
Í mælaborðinu eru upplýsingar um dánartíðni eftir mánuðum, árum og grófum aldursflokkum. Hægt er að skoða dánartíðni hvers árs frá upphafi COVID-19 í samanburði við fjögurra og átta ára tímabil fyrir COVID-19 og fá þannig vísbendingar um umframdánartíðni.
Einnig eru upplýsingar um COVID-19 andlát, bæði andlát þar sem COVID-19 hefur verið skráð sem aðal (undirliggjandi) dánarorsök og andlát þar sem COVID-19 hefur komið fram á dánarvottorði en er ekki aðal dánarorsök. Tölur fyrir árin 2022 og 2023 eru bráðabirgðatölur og geta tekið breytingum. Mikilvægt er að kynna sér vel allar upplýsingar sem fram koma í mælaborðinu.
Misvísandi upplýsingar um umframdánartíðni
Talsverð umræða hefur verið um dánartíðni undanfarið í kjölfar frétta af umframdauðsföllum á Íslandi í birtum gögnum frá evrópsku hagstofunni, Eurostat. Framsetning og aðferðir stofnunarinnar við áætlun á mánaðarlegri dánartíðni hefur í einstaka mánuðum valdið verulegu ofmati á dánartíðni hér á landi. Embætti landlæknis leitaði skýringa hjá Hagstofu Íslands og birti um þetta ítarlega frétt í lok nóvember síðastliðnum.
Líkt og segir í fréttinni eru mánaðarlegar tölur Eurostat áætlaðar út frá á vikulegum dánartölum frá Hagstofu Íslands, en vikur skarast gjarnan við mánaðarmót auk þess sem tölur sveiflast talsvert í okkar litla þýði. Þar að auki beitir stofnunin aðferðum til að vega upp fjölda andláta vegna ætlaðra seinkaðra skila á dánartölum í nýjustu vikum innsendra gagna hverju sinni. Þannig hefur verið áætlað að nýjasta vikan í innsendum gögnum frá Íslandi innihaldi aðeins 60% af raunfjölda andláta. Hagstofan sendir Eurostat mánaðarlega gögn um fjölda látinna eftir vikum, þegar að jafnaði eru liðnir meira en 30 dagar frá lokum síðustu innsendu vikunnar. Hagstofan hefur sýnt fram á að komnar séu upplýsingar til Þjóðskrár um yfir 99% andláta að þeim tíma liðnum. Embætti landlæknis og Hagstofan hafa fundað vegna þessa og standa vonir til að Eurostat endurskoði aðferðir við útreikninga fyrir Ísland.
Þegar öll gögn vegna dauðsfalla 2022 hafa borist dánarmeinaskrá hjá embætti landlæknis (líklega í apríl) verða dánarorsakir 2022 greindar og tölfræði þar um birt á vef embættisins.
Landlæknir
Sóttvarnalæknir
Þakkir til sviðs heilbrigðisupplýsinga, einkum Jóns Óskars Guðlaugssonar.
Nánari upplýsingar veitir Kjartan Hreinn Njálsson aðstoðarmaður landlæknis, kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is