8. maí 2023
8. maí 2023
COVID-19 ekki lengur talin bráð ógn við lýðheilsu samkvæmt WHO
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur aflýst skilgreiningu á COVID-19 sem bráðri ógn við lýðheilsu þjóða en slíku ástandi var lýst yfir skv. alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni í lok janúar 2020*. Slík skilgreining nýtist WHO og alþjóða samfélaginu við að samhæfa aðgerðir og er tilefni til að bregðast við með samstilltu átaki til að stöðva útbreiðslu sjúkdóms á milli landa.
Frá árinu 2005 hefur hefur WHO sjö sinnum lýst sjúkdómi sem alþjóðlegri lýðheilsuógn en auk COVID-19 (2020) var það vegna H1N1 inflúensu (2009), mænusótt (2014), zíkaveiru (2016), ebólu (2013–2015 og 2018–2020) og apabólu (2022). Mænusótt og apabóla eru enn taldar ógn við alþjóðlega lýðheilsu.
Faraldurinn er þó ekki yfirstaðinn þó neyðarástandi hafi verið aflýst. COVID-19 er nú orðið viðvarandi heilbrigðisvandamál. Þetta er jákvætt skref eftir 3 ½ erfið ár og er til marks um góðan árangur bólusetninga og þeirra aðgerða sem gripið var til til að draga úr útbreiðslu og áhrifum sjúkdómsins. En SARS-CoV-2 veiran er í dreifingu um allan heim. COVID-19 er enn heimsfaraldur þó smitum, sjúkrahúsinnlögnum og andlátum hafi fækkað þá er fólk enn að smitast og veikjast.
SARS-CoV-2 veiran virðist komin til að vera en hvernig hún mun hegða sér, hvernig árstíðarsveiflur verða, er ekki ljóst enn. Bylgjur smita hafa komið á nokkurra mánaða fresti en vonandi verða þær mildari og minni. Fjölmörg undirafbrigði ómíkron hafa komið fram en þau hafa hingað til ekki valdið meiri veikindum en hin fyrri. Veiran breytir sér ört og ef nýtt afbrigði kemur fram gæti komið stærri bylgja. Það er því mikilvægt að uppfæra viðbragðsáætlanir og halda áfram vöktun, viðbúnaði og sóttvörnum þ.m.t. bólusetningum. Eldra fólk og áhættuhópa þarf sérstaklega að verja og nýjar leiðbeiningar gera ráð fyrir örvunarbólusetningu þessara hópa í haust.
Við fögnum því þessum áfanga en förum okkur hægt og höldum vöku okkar. Við erum enn að læra um þennan tiltölulega nýja sjúkdóm þó við vitum mun meira nú en við gerðum í byrjun faraldursins. Við þurfum að tryggja að við höfum getu og sterka innviði til að nýta þá þekkingu og reynslu til að vera enn betur viðbúin næst þegar á þarf að halda.
Sjá nánar á vef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO)
Sóttvarnalæknir
*Bráð ógn við lýðheilsu sem varðar þjóðir heims samkvæmt alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni er á ensku Public Health Emergency of International Concern (PHEIC) og er óvenjulegur eða óvæntur atburður (sjúkdómur) sem er skilgreindur sem hætta fyrir lýðheilsu vegna alvarleika eða hættu á útbreiðslu á milli landa og sem gæti útheimt samstillt, alþjóðleg viðbrögð. Þá eru SARS, bólusótt, mænusótt og öll ný afbrigði inflúensu alltaf slík ógn, sem þarf ekki að lýsa yfir sérstaklega.