Fara beint í efnið

12. ágúst 2024

COVID-19 bóluefnin björguðu mannslífum samkvæmt rannsókn WHO í Evrópu

Frá því að bóluefni gegn COVID-19 voru fyrst tekin í notkun í desember 2020 og þangað til í mars 2023 fækkuðu bóluefnin dauðsföllum vegna heimsfaraldursins um 59% og björguðu þannig rúmlega 1,6 milljónum mannslífum á Evrópusvæði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Mynd með frétt um Covid-19 bóluefni

Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar WHO í Evrópu birtri í tímaritinu The Lancet Respiratory Medicine. Rannsóknin leiddi í ljós að þau 2,2 milljón COVID-19 dauðsföll, sem vitað er um á svæðinu, hefðu orðið allt að 4 milljónir án bólusetninganna.

Flest mannslífanna sem var bjargað voru meðal 60 ára eða eldri en það er sá hópur sem er í mestri hættu á alvarlegum veikindum og dauða af völdum SARS-CoV-2 veirunnar, sem veldur COVID-19.

Samkvæmt rannsókn WHO, komu bóluefnin í veg fyrir 542 dauðsföll á þessu 2,5 ára tímabili á Íslandi og meirihluti þeirra hefði verið í aldurshópnum eldri en 60 ára. Bólusetningar kom því í veg fyrir 70% þeirra COVID-19 dauðsfalla sem annars hefði mátt búast við án bólusetningar hérlendis. Sóttvarnalæknir lagði til íslensk gögn til rannsóknarinnar og er meðhöfundur greinarinnar.

„Niðurstöðurnar eru skýrar: COVID-19 bólusetningar bjarga mannslífum,“ sagði einn höfunda rannsóknarinnar, Dr. Margaux Meslé frá svæðisskrifstofu WHO í Evrópu. „ Án stórfells bólusetningarátaks hefði lífsviðurværi mun fleiri raskast og fleiri fjölskyldur misst sína viðkvæmustu.“

WHO rannsóknin leiddi í ljós að COVID-19 bólusetningarnar björguðu flestum mannslífum á tímabilinu þegar Omicron afbrigðið var ríkjandi, frá desember 2021 til mars 2023.

Í löndum þar sem bólusetningaráætlanir voru innleiddar snemma í faraldrinum og sem náðu til stórs hluta þjóðarinnar - eins og í Belgíu, Danmörku, Íslandi, Írlandi, Ísrael, Möltu, Hollandi og Bretlandi - varð hvað mestur ávinningur hvað varðar fjölda mannslífa sem var bjargað.

Hvað þýðir „sumarbylgja“ COVID-19?

Undanfarnar vikur hefur verið tilkynnt um aukningu á fjölda COVID-19 tilfella í nokkrum löndum á Evrópusvæðinu. Það er áminning um að á meðan COVID-19 er að hverfa mörgum úr minni hefur veiran ekki farið í burtu.

Þó að fjöldi tilfella í sumar sé lægri nú en í síðustu „vetrarbylgju“, sem náði hámarki í desember 2023, eru enn innlagnir á sjúkrahús og dauðsföll vegna COVID-19 veikinda í Evrópu. Ólíkt árstíðabundinni inflúensu er COVID-19 enn í dreifingu árið um kring.

Þangað til þetta mynstur breytist gætu komið margar bylgjur smita á hverju ári í Evrópu, sem reynir á heilbrigðiskerfið og eykur líkurnar á veikindum, sérstaklega hjá viðkvæmum einstaklingum.

Hvernig ver ég sjálfan mig?

COVID-19 bólusetning er afar áhrifarík leið til að draga úr bæði sjúkrahúsinnlögnum og dauðsföllum hjá einstaklingum í áhættuhópum, sérstaklega eldra fólki en einnig fólki með skert ónæmiskerfi, einstaklingum með undirliggjandi sjúkdóma, sem auka hættu á alvarlegum veikindum, barnshafandi konum og heilbrigðisstarfsfólki, sem er útsettara fyrir smiti.

Til að draga úr líkum á smiti, sérstaklega þegar COVID-19 er í meiri dreifingu, ættu einstaklingar að íhuga að nota grímur þar sem margir koma saman innandyra. Einnota fínagnagrímur FFP2/N95 veita bestu vörnina. Ef eiga þarf náin samskipti við einhvern sem er með COVID-19, hvort sem það er fjölskyldumeðlimur eða vegna umönnunar, er sérstaklega mikilvægt að gæta grundvallarsmitvarna og m.a. nota grímu.

Enn fremur er reglulegur vandaður handþvottur áhrifarík sýkingavörn, ekki bara gegn COVID-19 heldur einnig gegn mörgum öðrum veirum og bakteríum.

Að grípa til þessara varúðarráðstafana er sérstaklega mikilvægt fyrir viðkvæma einstaklinga, sem er í meiri hættu á alvarlegum afleiðingum ef þeir smitast.

Ef þú ert með algeng einkenni sem fylgja COVID-19 - t.d. hita, hósta, þreytu, mæði - gætir þú verið með COVID-19. COVID-próf getur staðfest smit og það getur hjálpað þér að vita hversu mikilli áhættu þú ert í sem og aðrir í kringum þig. Að auki, ef þú ert í aukinni hættu á alvarlegum afleiðingum COVID-19, ættir þú að hafa samband við heilbrigðisþjónustuna varðandi eftirlit og hugsanlega meðferð.

Afbrigði í dreifingu

Á heimsvísu eru JN.1 og afbrigði þess, þ.m.t. svokölluð „FLiRT“ afbrigði KP.2 og KP.3, þau afbrigði sem greinast mest um þessar mundir. Þessi afbrigði eru komin frá Omicron BA.2.86. Þau eru þó eru ekki talin alvarlegri en fyrri afbrigði en hugsanlega meira smitandi.

Núverandi bóluefni eru áhrifarík til að koma í veg fyrir alvarleg veikindi og dauða vegna nýrra afbrigða og rannsóknir eru í gangi til að ganga úr skugga um endingu verndar eftir örvunarskammt.

Framtíð COVID-19

WHO leggur áherslu á að þrátt fyrir að við séum nú komin út úr heimsfaraldrinum, heldur SARS-CoV-2 áfram að smita fólk og leiða til sjúkrahúsinnlagna og dauðsfalla í Evrópu.

Þar sem sumarbylgjur smita hafa einnig komið hingað til er ómögulegt að spá fyrir um hvernig veiran muni hegða sér það sem eftir er ársins 2024. Fleiri bylgjur gætu verið mögulegar nú þegar við förum úr neyðarástandi yfir í viðvarandi ástand í Evrópu.

WHO í Evrópu hvetur aðildarríki til að halda áfram COVID-19 bólusetningum sem beinist að viðkvæmum hópum og hvetur einstaklinga í áhættuhópum til að þiggja uppfært COVID-19 bóluefni. Sömu ráðleggingar eiga við hérlendis.

Sóttvarnalæknir

Sjá einnig: