1. nóvember 2022
1. nóvember 2022
Covid-19 andlát á Íslandi
Andlát vegna Covid-19 hafa verið í umræðunni undanfarið. Fyrst langar mig að minna á að nálgast þá umræðu af virðingu og samkennd.
Alls hafa 219 manns látist hérlendis frá 2020, beint af völdum Covid-19 eða Covid-19 var meðvirkandi þáttur andláts. Andlát er flokkað sem Covid-19 andlát ef viðkomandi lést á innan við einum mánuði eftir smit og læknir skráir Covid-19 sem orsök eða sem meðvirkandi þátt á dánarvottorð.
Árin 2020 og 2021 voru töluverðar en þó mismiklar takmarkanir í gangi í samfélaginu. Bólusetning hófst í desember 2020 en gert var átak í örvunarbólusetningum veturinn 2021. Ómíkron afbrigði veirunnar, sem hefur mikla smithæfni, tók yfir af delta afbrigði í desember 2021 til janúar 2022. Jafnframt var samkomutakmörkunum aflétt í lok febrúar 2022.
Af þessum 219 andlátum voru 180 á þessu ári. Þar af voru 129 andlát á tímabilinu febrúar-apríl og 25 létust í júlí (mynd 1). Líkur eru á að fjöldi andláta árið 2022 sé afleiðing af mikilli útbreiðslu á Covid-19 á þessu tímabili enda gengu þá yfir tvær stærstu bylgjur Covid-19 frá upphafi. Þess má geta að 5 Covid-19 andlát voru skráð í ágúst og september. Í alþjóðlegum samanburði er fjöldi andláta vegna Covid-19 á Íslandi árin 2020-2022 lágur miðað við mannfjölda.
Sjá nánar á covid.is
Umframdauðsföll
Eins og áður hefur komið fram er talið að áreiðanlegasta aðferðin til að meta fjölda andláta af völdum Covid-19 faraldurs sé að skoða heildarfjölda andláta af öllum orsökum og meta umframdauðsföll miðað við meðaltal fyrri ára.
Heildarfjöldi andláta á Íslandi af öllum orsökum óvenju mikill í mars 2022. Andlát í júlí 2022 voru einnig mörg miðað við meðaltali fyrri ára en á þessu tímabili gengu yfir tvær stærstu bylgjur Covid-19. Sjá nánar á covid.is
Sjá einnig:
Frétt á vef embættis landlæknis frá 24. ágúst sl. Umframdauðsföll á Íslandi og COVID-19
Sóttvarnalæknir