Fara beint í efnið

24. ágúst 2022

Umframdauðsföll á Íslandi og COVID-19

Við útreikninga á umframdauða á Íslandi eftir mánuðum var reiknaður út meðalfjöldi allra andláta á hverja 100.000 íbúa fyrir hvern mánuð yfir árin 2012, til og með 2019, ásamt 95% öryggisbili fyrir meðalfjölda andláta hvers mánaðar og gert ráð fyrir Poisson dreifingu talnanna. Að auki var fjöldi andláta hjá aldurshópnum 70 ára og eldri skoðaður.

Mynd 1. Fjöldi andláta á mánuði per 100 þúsund íbúa, allur aldur 2012 2022

Mynd 1. Fjöldi andláta á mánuði per 100 þúsund íbúa, allur aldur. Eins og sjá má þá var heildarfjöldi andláta á Íslandi af öllum orsökum óvenju mikill í marsmánuði 2022 (rauð lína).

Búið var til línurit með meðaltölum andláta hvers mánaðar áranna 2012 til og með 2019, með 95% öryggisbili. Allar tölur sem eru innan öryggisbilsins teljast þannig eðlilegar sveiflur milli ára. Með því að skoða fjölda andláta (heildarfjölda og fyrir 70 ára og eldri), í hverjum mánuði árin 2020 til og með 2022, má sjá hvort fjöldi andláta á tímum COVID-19 er óvenju lítill eða mikill.

Mynd 2 andlat a manud per 100 thus 70 ara og eldri 2012 2022

Mynd 2. Fjöldi andláta á mánuði per 100 þúsund íbúa, 70 ára og eldri.

Þegar litið er á aldurshópinn 70 ára og eldri (mynd 2) þá voru óvenju fá dauðsföll af öllum orsökum í júní-ágúst 2020 (græn lína) og janúar-mars, september og október 2021 (gul lína). Líklega hafa sóttvarnaaðgerðir á þessum tíma verndað þennan aldurshóp því sýkingum fækkaði almennt mjög á þessum tíma.

Hins vegar voru dauðsföll í þessum aldurshópi óvenju mörg í mars, apríl og júlí á árinu 2022 miðað við fyrri ár (rauð lína). Líklega er skýringar að leita í því að fækkun fyrri ára hafi leitt til fjölgunar síðar meir og einnig er líklegt að mikil útbreiðsla COVID-19 á árinu 2022 hafi leitt til aukningar dauðsfalla en yfirferð dánarvottorða fyrir júlímánuð er ekki lokið.

Að okkar mati er áreiðanlegasta aðferðin til að meta fjölda dauðsfalla af völdum COVID-19 sú að skoða heildarfjölda allra dauðsfalla, eins og að ofan er gert og meta umframdauðsföll. Önnur aðferð til að meta fjölda dauðsfalla sem tengjast COVID-19 er að skoða dánarorsakir með útgefnum dánarvottorðum. Þessi leið gefur ekki eins góða mynd af alvarleika faraldursins því þá er blandað saman dauðsföllum sem orsakast beint af COVID-19 og dauðsföllum þar sem COVID-19 gat verið meðvirkandi þáttur andláta. Þess ber að geta að andlát er flokkað sem Covid tengt ef Covid smit viðkomandi var innan mánaðar fyrir andlátið. Með mikilli útbreiðslu COVID-19 er líklegt að stór hluti þeirra sem lést hafi sýkst mánuðinn á undan.

Sóttvarnalæknir