7. nóvember 2024
7. nóvember 2024
Breytt framkvæmd við afgreiðslu umsókna um endurnýjun dvalarleyfa á grundvelli viðbótarverndar
Leggja þarf nýtt mat á aðstæður í heimalandi
Þann 4. júlí síðastliðinn urðu þær breytingar á útlendingalögum að dvalarleyfi á grundvelli viðbótarverndar er aðeins heimilt að endurnýja ef skilyrðum laga um viðbótarvernd er enn fullnægt. Þetta þýðir að Útlendingastofnun er nú skylt að meta hvort skilyrðum viðbótarverndar sé enn fullnægt við afgreiðslu umsóknar um endurnýjun.
Ef skilyrði viðbótarverndar eru áfram uppfyllt er dvalarleyfi endurnýjað. Sé það hins vegar mat Útlendingastofnunar að skilyrði verndarinnar séu ekki lengur uppfyllt, er viðkomandi boðið í viðtal hjá stofnuninni þar sem honum er leiðbeint um möguleika sína til að sækja um dvalarleyfi á öðrum grundvelli, til dæmis atvinnu eða sérstakra tengsla.
Umsóknir um dvalarleyfi sem berast í kjölfar slíkra viðtala verða afgreiddar jafnóðum og þær berast. Uppfylli viðkomandi skilyrði þess leyfis sem hann sækir um, fær hann heimild til að dvelja áfram á Íslandi.
Sæki viðkomandi ekki um annað dvalarleyfi, eða uppfyllir ekki skilyrði þess leyfis sem hann sækir um, er hann boðaður í viðtal vegna hugsanlegrar afturköllunar á viðbótarvernd þar sem hann fær tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Ákvörðun um synjun á endurnýjun og afturköllun viðbótarverndar er rökstudd stjórnvaldsákvörðun sem er kæranleg til kærunefndar útlendingamála. Endanleg ákvörðun um afturköllun verndar leiðir almennt til brottvísunar.
Rétt er að taka fram að Útlendingastofnun tók þá ákvörðun að bjóða einstaklingum í þessari stöðu í viðtal við upphaf máls til að geta veitt þeim sem bestar upplýsingar um möguleika sína til áframhaldandi dvalar, með aðstoð túlks, og draga þannig úr óvissu þeirra um næstu skref. Einstaklingum er í sjálfsvald sett hvort þeirri þiggi boð um að mæta í viðtal eða ekki.
Með því að bjóða einstaklingum í þessari stöðu að sækja um dvalarleyfi á öðrum grundvelli áður en formleg synjun á endurnýjun og afturköllun verndar hefur verið birt tryggir stofnunin að ekki verði rof á löglegri dvöl þeirra sem fá heimild til áframhaldandi dvalar hér á landi. Breyting á grundvelli dvalarleyfis hefur ekki áhrif á rétt einstaklings til ótímabundins dvalarleyfis að öðrum skilyrðum uppfylltum.