12. júlí 2024
12. júlí 2024
Breytingar á reglugerð um fjárhagsaðstoð við sjálfviljuga heimför
Þrepaskiptur viðbótarstyrkur og lægri styrkir til einstaklinga sem þurfa ekki áritun til Íslands
Í dag taka gildi breytingar á reglugerð um fjárhagsaðstoð við sjálfviljuga heimför.
Í fréttatilkynningu dómsmálaráðuneytisins kemur fram að markmið breytinganna sé að skapa jákvæðan hvata fyrir umsækjendur um vernd frá Venesúela og öðrum ríkjum til að snúa til síns heima. Þannig verði létt álagi af verndarkerfinu og komið í veg fyrir að málarekstur dragist á langinn að óþörfu með tilheyrandi kostnaði.
Skilyrði fyrir aðstoð við sjálfviljuga heimför
Eftir breytinguna á útlendingur ekki lengur rétt á aðstoð við sjálfviljuga heimför
á meðan umsókn hans um vernd er til meðferðar hjá kærunefnd útlendingamála eða
á meðan hann bíður svars við umsókn um dvalarleyfi eða ríkisborgararétt.
Héðan í frá þarf útlendingur að draga slíka umsókn til baka áður en hann óskar eftir aðstoð við sjálfviljuga heimför.
Breytingar á upphæðum og samsetningu styrkja
Heildarfjárhæð styrkja til fylgdarlausra barna hækkar. Heildarfjárhæðir styrkja til fullorðinna og barna standa í stað.
Stærri hluti heildarfjárhæðarinnar verður í boði sem viðbótarstyrkur, sjá upplýsingar um upphæðir styrkja.
Þrepaskiptur viðbótarstyrkur
Viðbótarstyrkur, sem býðst þeim sem óska eftir aðstoð við sjálfviljuga heimför áður en frestur til heimfarar er liðinn, er nú þrepaskiptur.
Þeir sem óska eftir aðstoð áður en niðurstaða liggur fyrir á kærustigi geta fengið hærri viðbótarstyrk en þeir sem óska eftir aðstoð eftir að niðurstaða liggur fyrir á kærustigi.
Enginn viðbótarstyrkur er í boði fyrir þá sem óska eftir aðstoð eftir að frestur til sjálfviljugrar heimfarar er liðinn.
Lægri styrkir til einstaklinga sem njóta áritunarfrelsis til Íslands
Ríkisborgarar ríkja sem njóta áritunarfrelsis til Íslands eiga nú rétt á lægri enduraðlögunarstyrk en ríkisborgarar annarra ríkja. Venesúela er eitt þeirra ríkja sem nýtur áritunarfrelsis til Íslands.
Ríkisborgarar þessara ríkja munu eiga rétt á 500 evra enduraðlögunarstyrk. Þeir munu ekki eiga rétt á viðbótarstyrk.
Þessi breytingin gildir ekki um umsækjendur um vernd sem staddir eru á Íslandi við gildistöku reglugerðarinnar. Þeir munu fá greidda styrki samkvæmt flokki B, sjá upplýsingar um upphæðir styrkja.