Fara beint í efnið

2. september 2024

Bólusetning gegn COVID-19 veturinn 2024-2025

COVID-19 bóluefni er til hjá dreifingaraðila. Bóluefni sem notað verður í bólusetningum veturinn 2024-2025 samkvæmt samningum heilbrigðisráðuneytis er Comirnaty JN.1 bóluefni.

Bólusett í handlegg.

Eingöngu er mælt með bólusetningu áhættuhópa frá 5 ára aldri og forgangshópa með þessu uppfærða bóluefni gegn þeim undirafbrigðum omikron sem hér hafa verið ráðandi þetta ár. Á vef embættis landlæknis má finna sérstakar leiðbeiningar um COVID-19 bólusetningar haustsins.

Bóluefnið má gefa á sama tíma og inflúensubóluefni. Áhættu- og forgangshópar eru nánast þeir sömu fyrir bæði bóluefnin, en aðilar sem bólusetja geta kosið að bjóða upp á COVID-19 bólusetningar áður en inflúensubólusetningar geta hafist. Þá er mælt er með að tvær vikur líði á milli bólusetninga ef kostur er, til að draga úr hættu á að aukaverkanir af öðru bóluefninu séu skrifaðar á hitt bóluefnið. Ef tilefni er til, svo sem vegna ferðalags, þá má gefa bóluefnin með styttra millibili.

Sóttvarnalæknir mælist til að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við COVID-19 bólusetningar:

  • Allir einstaklingar 60 ára og eldri.

  • Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, offitu, sykursýki, illkynja sjúkdómum eða eru ónæmisbæld af völdum lyfja eða sjúkdóma.

Eftirfarandi hópum býðst bólusetning ef faraldsfræði eða eitthvað við aðstæður einstaklinga eða stofnunar gefur tilefni til að mati hlutaðeigandi aðila:

  • Barnshafandi konur, eftir fyrsta þriðjung meðgöngu.

  • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.

Bóluefnið er forgangshópum að kostnaðarlausu.

Aðilar sem sinna COVID-19 bólusetningum eru heilsugæslur, hjúkrunarheimili, sjúkrahús og ákveðin apótek þar sem samkomulag hefur verið gert við heilsugæslu og/eða yfirvöld. Bent er á fjölmiðla eða vefsíður stofnana og fyrirtækja fyrir auglýsingar um fyrirkomulag bólusetninga á hverjum stað.

Sóttvarnalæknir