Fara beint í efnið

7. september 2022

Bólusetning gegn COVID-19 haustið 2022

Sóttvarnalæknir hefur gefið út leiðbeiningar um notkun COVID-19 bóluefna frá 15. september næstkomandi.

Landlæknir logo

Aðaláherslan er lögð á örvunarbólusetningu 60 ára og eldri og annarra sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum vegna COVID-19. Þar að auki er mælt með örvunarbólusetningu fyrir heilbrigðisstarfsmenn ef lengra er liðið en 6 mánuðir frá síðasta skammti, til þess að draga úr veikindum hjá þeim hópi og smitdreifingu innan stofnana eins og kostur er.

Nýjar útgáfur COVID-19 bóluefna frá Pfizer/BioNTech og Moderna eru væntanlegar til landsins áður en þessar leiðbeiningar taka gildi. Miðað við afhendingaráætlanir er líklegt að þau taki við af eldri bóluefnunum fyrir allar örvunarbólusetningar 12 ára og eldri fyrir áramót. Upprunalegu bóluefnin verða áfram notuð fyrir grunnbólusetningar þar sem ekki hefur verið staðfest að nýju bóluefnin séu jafnvirk þeim eldri við þá notkun.

Mælt verður með að inflúensubóluefni og COVID-19 bóluefni verði gefin áhættuhópum samhliða ef tímasetning síðustu COVID-19 bólusetningar leyfir (a.m.k. 4 mánuðir liðnir). Áhættuhópar sem eru í forgangi fyrir bæði inflúensu- og COVID-19 bólusetningar eru:

  • Allir einstaklingar 60 ára og eldri.

  • Öll börn og fullorðin sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.

  • Barnshafandi konur.       

  • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.

COVID-19 bólusetningar eru með öllu gjaldfrjálsar fyrir einstaklinga. Sóttvarnalæknir greiðir kostnað vegna inflúensubóluefnis fyrir ofangreinda áhættuhópa en heilsugæslunni og öðrum sem bólusetja er heimilt að rukka komugjald vegna þeirrar bólusetningar.

Heilsugæslan á hverju svæði mun auglýsa nánar fyrirkomulag bólusetninga fyrir áhættuhópa á næstunni.

Sjá nánar: 

Sóttvarnalæknir