Fara beint í efnið

18. júlí 2024

Aukning á Covid-19-greiningum

Síðastliðnar vikur hafa greiningar á Covid-19 aukist töluvert.

Aukning á Covid-19 greiningum

Síðastliðnar vikur hafa greiningar á Covid-19 aukist töluvert. Innlögðum á Landspítala með Covid-19 hefur einnig fjölgað en skv. talsmönnum spítalans eru veikindi ekki alvarleg. Í síðustu viku lá 41 sjúklingur inni með Covid-19. Landspítali hefur gripið til aðgerða til að sporna við útbreiðslu veirunnar innan spítalans meðal sjúklinga og starfsfólks, m.a. með grímuskyldu.

Í byrjun júlí greindist 51 einstaklingur með Covid-19 með PCR-prófi, sem var fjölgun frá um 30 tvær vikurnar þar á undan. Í síðustu viku greindust svo 70 einstaklingar. Innlögðum einstaklingum með Covid-19 á Landspítala fjölgaði einnig. Hafa ber í huga að þessar tölur segja einungis til um staðfesta greiningu með PCR-prófi og ljóst að fleiri eru með Covid-19 í samfélaginu.

Covid-19 er smitandi sjúkdómur sem smitast með úða og dropum frá öndunarfærum. Þau afbrigði sem eru aðallega í dreifingu hérlendis nú eru þau sömu og eru að greinast í nágrannalöndunum (ómíkron BA.2.86. afbrigði (JN.1, KP.2, KP.3). Aðrar öndunarfærasýkingar sem greinast hér um þessar mundir eru helst rhinoveira (kvef) og adenoveira. Engin inflúensa eða RS-veira hefur greinst í nokkrar vikur fyrir utan eitt tilfelli RSV í síðustu viku.

Einkenni Covid-19 geta verið allt frá vægum kvefeinkennum til hás hita, slappleika og flensulíkra einkenna og einkenni eru mismikil milli einstaklinga. Það eru einna helst eldri einstaklingar og einstaklingar með undirliggjandi áhættuþætti sem veikjast alvarlega vegna Covid-19 og þurfa innlögn á spítala. Engar vísbendingar um að veikindin nú séu alvarlegri en sl. vetur.

Í sumum Evrópuríkjum hefur einnig sést aukning á tilfellum Covid -19 undanfarið án merkja um aukinn alvarleika veikinda.

Engar sérstakar reglur eru í samfélaginu vegna Covid-19 eða annarra öndunarfærasýkinga en full ástæða er til að sinna almennum sóttvörnum til að draga úr líkum á að smitast og að smita aðra, s.s. að halda sig heima og sem mest til hlés ef með einkenni, huga að nánd við aðra og umgengni við viðkvæma einstaklinga, sinna handþvotti og hreinlæti snertiflata og nota andlitsgrímu ef ástæða er til.

Mælt var með bólusetningum gegn Covid-19 síðasta haust hjá eldra fólki og einstaklingum í áhættuhópum. Í haust verður aftur boðið upp á bólusetningu gegn Covid-19 þegar uppfært bóluefni berst til landsins og tímasetning bólusetninga verður þá auglýst sérstaklega.

Minnum á almennar sóttvarnir til að draga úr smiti öndunarfærasýkinga:

  • Halda sig til hlés í veikindum

  • Forðast umgengni við ung börn, eldra fólk og aðra viðkvæma ef með einkenni

  • Hylja nef og munn við hósta og hnerra

  • Sinna viðeigandi handþvotti

  • Nota grímu ef ástæða til þ.m.t. á heilbrigðisstofnunum og biðstofum

  • Lofta út

  • Sinna hreinlæti snertiflata

  • Forðast fjölmenni og halda fjarlægð við aðra ef með einkenni

Sóttvarnalæknir