Fara beint í efnið

6. nóvember 2020

Aukið framboð rafrænnar þjónustu sýslumanna

Enn fjölgar kostum rafrænnar þjónustu við almenning hjá sýslumannsembættum. Nú er hægt að sækja ýmis málsgögn vegna fjölskyldumála gegnum Ísland.is.

Hond a tolvu

Sýslumannsembættin hafa ráðist í fjölbreyttar aðgerðir til að bæta þjónustu við almenning með rafrænum lausnum sem nú á tímum Covid-19 koma sér vel í þeirri viðleitni að draga úr smithættu, auðvelda almenningi að nálgast þjónustu embættanna og spara tíma og fyrirhöfn. Þær leiðir sem nú eru kynntar eru liður í þróun stafrænnar þjónustu embættanna til framtíðar.

Embættin bjóða nú upp á sjálfsafgreiðslu sakavottorða (einkavottorð) og skil á rúmlega 50 eyðublöðum sem hægt er að fylla út og undirrita rafrænt. Jafnframt er boðið upp á netspjall á vef embættanna.

  • Hægt er að sækja rafrænt um sakavottorð á Ísland.is. Þá er jafnframt hægt að afla frekari upplýsinga um afgreiðslu sakavottorða (einkavottorð) á vef sýslumanna.

  • Rafræn eyðublöð sýslumanna eru m.a. aðgengileg á vef sýslumanna undir eyðublöð og eru þau auðkennd sérstaklega sem „Stafrænt form“. Unnið er að því að fjölga stafrænum lausnum fyrir umsóknir til sýslumanna.    

Nú þegar hafa yfir 1600 manns sótt eigin sakavottorð í gegnum vefinn Ísland.is frá því opnað var fyrir þá lausn í júlí 2020 og rúmlega 800 einstaklingar skilað inn til sýslumanna rafrænum eyðublöðum. Þykja þessar tölur staðfesta að eftirspurn eftir slíkri þjónustu sé ótvírætt til staðar.

Sýslumenn vekja athygli á þeirri nýjung að nú geta einstaklingar fengið ýmis málsgögn sem verða til við meðferð fjölskyldumála send með stafrænum hætti í pósthólf sín á Ísland.is. Málsgögnin verða aðeins aðgengileg hlutaðeigandi, en til að komast inn á sitt svæði þarf fullgild rafræn skilríki.

Dæmi um málsgögn sem verður að finna í pósthólfinu á Ísland.is eru:

  • Kynning á erindi

  • Boðun í viðtal 

  • Bókun í gerðabók

  • Vottorð um sáttameðferð

  • Tilkynning vegna málsmeðferðar

  • Leyfi til skilnaðar að borði og sæng

  • Leyfi til lögskilnaðar

  • Staðfesting samnings vegna sambúðarslita

  • Staðfesting samnings

  • Tilkynning um lok máls – þetta gæti verið frávísun, synjun um úrlausn, bréf til að staðfesta afturköllun.

  • Málsgögn – þetta er til að nota þegar verið er að afgreiða afrit út úr málum eða þegar ekkert af framangreindu þykir eiga við.

Aukið framboð rafrænna og stafrænna lausna er tilkomið vegna samvinnu sýslumannsembættanna við dómsmálaráðuneytið, verkefnastofu um stafrænt Ísland, Þjóðskrá og ýmis hugbúnaðarfyrirtæki.