Fara beint í efnið

19. september 2023

Ársskýrsla um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería hjá mönnum og dýrum á Íslandi 2022

Ársskýrsla um sýklalyfjanotkun og -næmi hjá mönnum og dýrum fyrir árið 2022 er komin út í ellefta sinn. Skýrslan er gefin út í samstarfi við Matvælastofnun (MAST) sem fjallar um sýklalyfjanotkun dýra ásamt sýklalyfjanæmi matvæla og dýra. Einnig lögðu Landspítali, Lyfjastofnun, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Umhverfisstofnun til gögn fyrir skýrsluna.

Forsíða sýklalyfjaskýrslu 2023

Sýklalyf og Ein heilsa
Uppgötvun sýklalyfja er ein merkasta uppgötvun læknisfræðinnar en því miður fer ónæmi sýkla vaxandi. Ónæmir sýklar virða engin landamæri og berast greiðlega á milli landa. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur lýst því yfir að sýklalyfjaónæmi sé ein helsta heilbrigðisógn sem steðjar að mannkyni í dag.

„Ein heilsa“ er heildstæð sýn sem nær yfir heilbrigði fólks, dýra og umhverfis. Hugtakið á sérstaklega vel við í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi en ónæmir sýklar berast greiðlega á milli manna, dýra og umhverfis. Ráð Evrópusambandsins (ESB) samþykkti fyrr á þessu ári tilmæli sem miða að því að efla aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi á sviði Einnar heilsu. Tilmæli ráðsins eiga að stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja hjá mönnum og dýrum með það að markmiði að draga úr sýklalyfjaónæmi.

Aðgerðir hérlendis
Hérlendis er áætlað að styrkja þverfaglega samvinnu um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi. Fyrir tæpu ári var skipaður starfshópur um aðgerðir hérlendis en verkefnið er unnið í samstarfi heilbrigðis-, matvæla- og umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytis. Starfshópurinn hefur það hlutverk að móta framtíðarsýn í málaflokknum til næstu tíu ára. Þá er hópnum falið að móta aðgerða- og framkvæmdaáætlun í málefnum sýklalyfjaónæmis til næstu fimm ára auk þess að vinna að vitundarvakningu í samfélaginu.

Sýklalyfjanotkun og ónæmi sýkla á Íslandi
Íslendingar nota áfram meira af sýklalyfjum en aðrar Norðurlandaþjóðir en eru í meðallagi miðað við lönd ESB/EES. Heildarsala sýklalyfja fyrir fólk á Íslandi jókst árið 2022 miðað við tvö árin þar á undan. Tímabundið dró úr tíðni annarra sýkinga árin 2020 og 2021 í COVID-19 faraldrinum líklega m.a. vegna víðtækra sóttvarnaaðgerða.

Heildarsala sýklalyfja fyrir dýr hérlendis árið 2022 var nær þriðjungi hærri en árið áður sem skýrist einvörðungu af sýklalyfjagjöf í landeldi á bleikju vegna kýlaveikibróður. Sé sú sala sýklalyfja dregin frá sést að sala sýklalyfja fyrir dýr hefur dregist saman síðustu ár.

Á Íslandi er lágt hlutfall ónæmra baktería miðað við mörg önnur Evrópulönd. Þó hefur greiningum á ónæmum bakteríum gegn mikilvægum sýklalyfjum svo sem penicillínum og kefalósporínum fjölgað undanfarinn áratug. Þessi þróun hefur einnig átt sér stað annars staðar í Evrópu og heiminum.

Staðan í dag
Staðan á Íslandi er að mörgu leyti góð hvað varðar notkun sýklalyfja og sýklalyfjaónæmi en mikið starf er enn óunnið. Með sameiginlegu átaki verndum við sýklalyfin og drögum úr útbreiðslu ónæmra sýkla hérlendis og í heiminum.

Sjá nánar:

Sóttvarnalæknir