Fara beint í efnið

29. september 2022

Ársskýrsla um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería hjá mönnum og dýrum á Íslandi 2021

Ársskýrsla um sýklalyfjanotkun og -næmi hjá mönnum og dýrum fyrir árið 2021 er nú komin út en þetta er í tíunda sinn sem slík skýrsla er birt.

Sóttvarnalæknir - logo

Ársskýrsla um sýklalyfjanotkun og -næmi hjá mönnum og dýrum fyrir árið 2021 er nú komin út en þetta er í tíunda sinn sem slík skýrsla er birt. Að þessu sinni er skýrslan gefin út í samstarfi við Matvælastofnun (MAST) sem leggur til þá kafla skýrslunnar sem fjalla um sýklalyfjanotkun dýra ásamt sýklalyfjanæmi matvæla og dýra.

Sýklalyf geta komið í veg fyrir dauðsföll og aðrar alvarlegar afleiðingar smitsjúkdóma en á síðari árum hefur ónæmi gegn sýklalyfjum farið vaxandi í heiminum. Hefur sýklalyfjaónæmi verið lýst sem einni mestu heilbrigðisógn sem steðjar að mannkyninu í dag. Framtíðarsýnin „Ein heilsa“ er nálgun sem nær yfir fólk, dýr, umhverfi og matvæli en skynsamleg notkun sýklalyfja er lykilatriði til þess að stemma stigu við frekari útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.

Þegar heildarsala sýklalyfja fyrir menn á Íslandi er mæld sem daglegir lyfjaskammtar á einstakling (DID, DDD/1000 íbúa/dag) kemur í ljós að salan hefur töluvert dregist saman síðustu ár. Salan var tæp 24 DID árið 2017 samanborið við 17,2 DID árið 2021, sem nemur um 28% lækkun. Mest minnkaði salan á milli áranna 2019 og 2020 eða úr 19,4 DID árið 2019 niður í 16,2 DID árið 2020 en á árinu 2020 voru viðamiklar samfélagslegar og einstaklingsbundnar sóttvarnaaðgerðir í samfélaginu vegna COVID-19. Salan jókst hins vegar aftur um 1,0 DID milli áranna 2020 og 2021 svo áhrif faraldursins á sýklalyfjasölu virðast að einhverju leyti hafa gengið til baka. Nánar er fjallað um áhrif COVID-19 á ávísanir sýklalyfja í skýrslunni.  

Sýklalyfjaónæmi í bakteríum á Íslandi hefur lítið breyst undanfarin ár og hefur Ísland lágt hlutfall ónæmra baktería miðað við mörg önnur Evrópulönd. Undantekning á þessu hefur verið hærra ónæmi pneumókokka hérlendis en sú baktería getur valdið alvarlegum sýkingum hjá eldri fullorðnum og börnum.

Heildarsala sýklalyfja fyrir dýr hélst stöðug hérlendis en notkunin hefur löngum verið með því minnsta í Evrópu. Vert er að taka fram að notkun sýklalyfja sem vaxtarhvata í dýrum er ekki leyfð á Íslandi.

Á næstu árum er áætlað að styrkja enn frekar þverfaglega vinnu sem miðar að því að lágmarka útbreiðslu sýklalyfjaónæmis (Ein Heilsa) hérlendis og í erlendu samstarfi. Mikið starf er óunnið á þessum vettvangi og mikilvægt að áfram verði haldið á þeirri braut. Með samstilltu átaki verndum við sýklalyfin og tökumst á við sýklalyfjaónæmi hér á landi og í heiminum.

Sjá nánar: Sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería hjá mönnum og dýrum á Íslandi 2021.

Anna Margrét Halldórsdóttir
yfirlæknir á sóttvarnasviði