Fara beint í efnið

5. mars 2024

Alþjóðlegur dagur tileinkaður HPV veiru

Fjórði mars er alþjóðlegur dagur tileinkaður HPV veiru (human papillomavirus). HPV veirur geta valdið krabbameinum hjá konum og körlum en til er öflugt og öruggt bóluefni til varnar mörgum þeirra. Krabbameinsskimun getur greint frumubreytingar í leghálsi áður en krabbamein myndast.

Plástur, bólusetning, handleggur konu

HPV veiran

HPV veiran er mjög algeng í samfélaginu og smitast við kynmök. Veiran er einkum algeng hjá ungu fólki sem lifir virku kynlífi.

HPV veiran hefur meira en 200 undirtegundir. Um það bil 40 þeirra geta valdið sýkingum í kynfærum karla og kvenna. Um 15 stofnar HPV veirunnar tengjast krabbameinum, algengast er krabbamein í leghálsi en önnur eru í endaþarmi, leggöngum og í ytri kynfærum bæði kvenna og karla. Veiran getur einnig valdið krabbameini í munnholi, hálsi og berkjum og smitast þá við munnmök.

Sýkingar af völdum veirunnar eru yfirleitt einkennalausar og í flestum tilfellum eyðir ónæmiskerfi líkamans þeim innan fárra mánaða án nokkurra afleiðinga. Ef sýking nær fótfestu og verður viðvarandi aukast líkur á forstigsbreytingum og síðar krabbameini ef ekkert er að gert.

HPV veirur af öðrum stofnum geta valdið vörtum, t.d. á kynfærum. Sjá nánar umfjöllun um HPV-veirur.

HPV veira og krabbamein

Talið er að HPV veira eigi þátt í þróun 5% allra krabbameina á heimsvísu. Leghálskrabbamein er eitt algengasta krabbamein hjá konum um heim allan og langflest eru af völdum HPV veiru. Á Íslandi greinast árlega um 15-20 konur með leghálskrabbamein. Meðalaldur kvenna með leghálskrabbamein er um 45 ár og um 80% lifa í fimm ár eða lengur frá greiningu.

Tíðni HPV veira í öðrum krabbameinum á Íslandi er ekki eins vel þekkt en hefur farið vaxandi víða um heim á undanförnum áratugum. Engin meðferð er til við HPV sýkingum en hægt er að greina forstigsbreytingar krabbameins í leghálsi með frumustroki. Sjá upplýsingar um leghálskrabbamein á vef Krabbameinsfélagsins.

Það tekur um 15-20 ár fyrir krabbamein að koma fram eftir sýkingu og nýlega var birt langtíma rannsókn frá Skotlandi á konum fæddum 1988-1996. Niðurstöðurnar sýndu að engin tilfelli leghálskrabbameins fundust meðal þeirra kvenna sem höfðu verið bólusettar gegn HPV veiru á aldrinum 12-13 ára.

Bólusetning gegn HPV sýkingum

Á Íslandi hafa verið notuð tvö bóluefni gegn þeim tegundum HPV veirunnar sem einkum valda leghálskrabbameini. Bóluefnin eru Cervarix , notað síðan 2011, og Gardasil 9. Síðarnefnda bóluefnið inniheldur að auki mótefnavaka gegn þeim tegundum veirunnar sem valda kynfæravörtum. Frá árinu 2023 er bóluefnið Gardasil 9 notað óháð kyni fyrir öll 12 ára börn.

HPV bóluefnin verja ekki gegn öllum stofnum veirunnar sem geta valdið leghálskrabbameini en með bólusetningu má koma í veg fyrir meirihluta krabbameinstilfella.

Skimun fyrir krabbameini

Á meðan HPV veirur eru enn útbreiddar í samfélaginu er áfram mikilvægt fyrir konur að fara reglulega í leghálskrabbameinsskimun þar sem tekið er frumustrok til greiningar forstigsbreytinga eða krabbameins á byrjunarstigi. Eins og er þá er ekki hægt að skima fyrir öðrum krabbameinum af völdum HPV veiru.

Sóttvarnalæknir