29. júlí 2024
29. júlí 2024
Alþjóðlegur dagur lifrarbólgu árið 2024
Bólga í lifur af völdum veira getur leitt til alvarlegra sjúkdóma og lifrarkrabbameins. Milljónir manna í heiminum lifa með langvarandi sýkingu og þúsundir veikjast árlega vegna bráðra lifrarbólgusýkinga en helstu lifrarbólguveirurnar eru fimm: A, B, C, D og E.
Á alþjóðlegum degi lifrarbólgu 28. júlí lagði Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) áherslu á viðvarandi áskoranir fyrir lýðheilsu vegna lifrarbólgu B og C, helstu áhættuþáttum lifrarkrabbameins í Evrópu.
Langvinn lifrarbólga, af völdum lifrarbólgu B og C veirusýkinga, er meðal helstu áhættuþátta lifrarkrabbameins og sjötta helsta orsök dauðsfalla af völdum krabbameins í Evrópu, en viðvarandi lifrarbólga olli næstum 55.000 dauðsföllum í Evrópu árið 2022.
Um það bil 3,6 milljónir manna í ESB/EES-ríkjum eru með viðvarandi sýkingu af völdum lifrarbólgu B veiru (HBV) og 1,8 milljónir af lifrarbólgu C veiru (HCV). Tíðni þessara sýkinga sem og aðgangur að forvörnum og umönnun vegna lifrarbólgu er mismunandi eftir löndum og hópum, með sérstaklega mikilli tíðni meðal viðkvæmra hópa fólks sem sprautar sig með fíkniefnum, fólks í fangelsi og sumra innflytjendahópa/farandverkafólks.
Árangursríkar forvarnir eru til fyrir bæði lifrarbólgu B og C, þar með talið bólusetning gegn HBV og skaðaminnkandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir sýkingar í blóði meðal sprautufíkla. Árangursríkar meðferðir eru einnig í boði fyrir báðar sýkingar sem geta dregið úr líkum á alvarlegum lifrarsjúkdómi og krabbameini.
Umtalsverður fjöldi fólks greinist ekki fyrr en sjúkdómurinn er langt genginn, þegar skorpulifur og lifrarkrabbamein hafa þegar þróast. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) áætlar að á heimsvísu séu meirihluti lifrarbólgu B og C sýkinga ógreindar sem undirstrikar nauðsyn þess að efla viðleitni til að efla prófanir í flestum löndum. Lifrarbólga B og C er greind með blóðprufu sem hægt er að taka hjá öllum læknum og liggja niðurstöðurnar fyrir innan nokkurra daga.
ECDC kallar eftir átaki og samvinnu milli stjórnvalda, heilbrigðisstarfsmanna og samfélaga til að auka líkur á útrýmingu lifrarbólgu B og C. Með því að efla bólusetningaráætlanir, innleiða markvissar prófanir, tryggja aðgang allra að umönnun og styrkja forvarnir, getum við náð heilbrigðari framtíð fyrir alla.
Sóttvarnalæknir
Sjá einnig: