Fara beint í efnið

8. maí 2023

Alþjóðlegt velsældarþing verður haldið í Reykjavík í júní

Dagana 14. og 15. júní nk. verður Velsældarþing haldið í fyrsta sinn í Hörpu, en forsætisráðuneytið vinnur að þinginu í samvinnu við embætti landlæknis og fleiri aðila.

Norræna lýðheilsuráðstefnan 2022

Dagana 14. og 15. júní nk. verður Velsældarþing haldið í fyrsta sinn í Hörpu, en forsætisráðuneytið vinnur að þinginu í samvinnu við embætti landlæknis og fleiri aðila. Þingið er haldið í kjölfarið á ráðstefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um heilbrigðismál og velsældarhagkerfi sem fram fór dagana 1.-2. mars sl. Þar flutti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra opnunarávarp þar sem fram kom mikilvægi þess að nota aðra mælikvarða en efnahagslega til að mæla velsæld. Við þetta tilefni sagði forsætisráðherra enn fremur frá því hvernig íslensk stjórnvöld hafa mótað velsældarvísa til að mæla hagsæld og lífsgæði á Íslandi. Á komandi velsældarþingi verða næstu skref tekin í átt að velsældarhagkerfi og velsældarsamfélagi. Þingið er þannig vettvangur fyrir frekara samstarf um velsældarhagkerfi milli Norðurlandanna og annarra þjóða sem eru leiðandi á þessu sviði. Þingið verður opið öllum og aðgangur ókeypis.

Upptökur frá sameiginlegum degi Norrænu lýðheilsuráðstefnunnar og Evrópuráðstefnu í jákvæðri sálfræði

Alþjóðlega velsældarþingið sem haldið verður í sumar byggir einnig á reynslu frá fyrri ráðstefnum um velsæld. Þannig stóð embætti landlæknis að Norrænu lýðheilsuráðstefnunni sem haldin var í Hörpu í lok júní á síðasta ári en á sama tíma var haldið Evrópuráðstefna í jákvæðri sálfræði. Til umfjöllunar þar voru velsæld, lýðheilsa og hamingja í erindum, pallborðsumræðum og vinnustofum. Á ráðstefnunum var leitast við að svara spurningum á borð við af hverju norrænar þjóðir eru meðal hamingjusömustu þjóða heims, hvernig hægt er að nota niðurstöður rannsókna um vellíðan til að skapa betri, sanngjarnari og sjálfbærari heim og hvernig hægt er að stuðla að vellíðan í lífi, leik og starfi.

Upptökur frá sameiginlegum degi ráðstefnanna þar sem velsæld var til umræðu má nálgast á ráðstefnuvefnum. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis var m.a. með erindi ásamt Feliciu Huppert, frá stofnun um Velsæld við háskólann í Cambrigde, Andra Snæ Magnasyni rithöfundi og John Helliwell, einn af ritstjórum skýrslu um hamingju í heiminum (World Happiness Report) sem gefin er út á alþjóðadegi hamingju 20. mars ár hvert.

Heiðursgestgjafi Meet in Reykjavík

Þann 27. apríl síðastliðinn tók Dóra Guðrún við viðurkenningu sem heiðursgestgjafi 2022-2023 frá Meet in Reykjavík fyrir Norrænu lýðheilsuráðstefnuna og Evrópuráðstefnuna í jákvæðri sálfræði, fyrir framúrskarandi vinnu við að efla ímynd Reykjavíkur sem eftirsóknarverðan ráðstefnuáfangastað. Dóra Guðrún leiddi vinnu við að tryggja að Evrópuráðstefna í jákvæðri sálfræði yrði haldin í Reykjavík og tengdi hana við Norrænu lýðheilsuráðstefnuna sem embætti landlæknis stóð fyrir. Einn dagur var sameiginlegur með báðum ráðstefnunum sem tengdi saman fólk frá ólíkum geirum sem öll hafa það sameiginlega markmið að vinna að velsæld fólks og jarðarinnar. Á lýðheilsuráðstefnuna mættu um 480 gestir og á Evrópuráðstefnu í jákvæðri sálfræði mættu um 820 gestir, samtals um 1300 gestir á sameiginlega dag ráðstefnanna.

Frekari upplýsingar veita:
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, dora.g.gudmundsdottir@landlaeknir.is
Sólveig Karlsdóttir
, solveig.karlsdottir@landlaeknir.is
Hugrún Snorradóttir, hugrun.snorradottir@landlaeknir.is

Heiðursgestgjafi Meet in Reykjavík - Dóra Guðrún