8. janúar 2020
8. janúar 2020
Verklag við skráningar sjúkdómsgreininga
Embætti landlæknis og Sjúkratryggingar Íslands fengu árið 2019 það verkefni að annast formlegt eftirlit með því að heilsugæslustöðvar starfi í samræmi við gildandi kröfulýsingu vegna rekstrar heilsugæsluþjónustu og uppfylli öll skilyrði sem þar eru tilgreind.
Embætti landlæknis og Sjúkratryggingar Íslands fengu árið 2019 það verkefni að annast formlegt eftirlit með því að heilsugæslustöðvar starfi í samræmi við gildandi kröfulýsingu vegna rekstrar heilsugæsluþjónustu og uppfylli öll skilyrði sem þar eru tilgreind. Eftirlitið mun m.a. felast í greiningu og rýni starfsemistalna, kostnaðar- og þarfavísitala, gæðaviðmiða og eftirliti með skráningu sjúkdómsgreininga sem eru undirstaða þarfavísitölu. Samkvæmt skipunarbréfi er embætti landlæknis einnig ætlað að móta og samræma skýrara verklag við skráningar sjúkdómsgreininga í heilsugæslu þar sem skráðar sjúkdómsgreiningar eru undirstaða útreikninga á sjúkdómabyrði í fjármögnunarkerfi heilsugæslu.
Skráning sjúkdómsgreininga í sjúkraskrá - Leiðbeiningar eru meðfylgjandi.
Leiðbeiningarnar byggja á fyrirmælum í lögum og reglugerð um sjúkraskrár, fyrirmælum landlæknis um öryggi og gæði sjúkraskráa sem og fyrirmælum landlæknis um lágmarksskráningu.
Leitað var til sérfræðinga í heimilislækningum, stjórnenda í heilsugæslu auk sérfræðinga í sjúkraskrárkerfinu Sögu við vinnuna og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir gagnlegar athugasemdir.
Áslaug Salka Grétarsdóttir, verkefnisstjóri, heilbrigðisupplýsingasviði
netfang: salka(hja)landlaeknir.is