Fara beint í efnið

29. júní 2021

Uppfærðar upplýsingar um D-vítamín á vefsíðu embættisins

Það er misjafnt milli landa hvernig ráðlagt er um D-vítamín, bæði hvað varðar magn og hvort mælt sé með því að fá D-vítamín með fæðubótarefnum s.s. lýsi eða töflum.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Það er misjafnt milli landa hvernig ráðlagt er um D-vítamín, bæði hvað varðar magn og hvort mælt sé með því að fá D-vítamín með fæðubótarefnum s.s. lýsi eða töflum. Á Íslandi eru ráðleggingarnar hærri hvað varðar magn D-vítamíns en á hinum Norðurlöndunum og er það aðallega vegna þess að hér á landi eru almennt færri sólardagar en í nágrannalöndunum, en D-vítamín getur myndast í húð fyrir tilstuðlan útfjólublárra geisla.

D-vítamín hefur mörg mikilvæg hlutverk í líkamanum, meðal annars að stuðla að upptöku á kalki úr fæðunni og uppbyggingu beina.

Á vefsíðu embættis landlæknis hafa nú verið uppfærðar upplýsingar um D-vítamín og farið sérstaklega yfir þær upplýsingar sem við höfum úr íslenskum rannsóknum varðandi neyslu á D-vítamíni. Einnig er m.a. farið yfir efri mörk öruggrar neyslu sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) setur sem og nýlegar ráðleggingar um að sleppa notkun D-vítamíndropa tímabundið í þeim tilvikum þar sem ungbarn fær meira en 800 ml á sólarhring af ungbarnablöndu (þurrmjólk) sem er ávallt D-vítamínbætt.

Á Íslandi er mælt með því að allir taki inn D-vítamín sem fæðubót (lýsi, perlur/hylki eða D-vítamíntöflur) einnig yfir sumartímann ef notuð er sólarvörn, eins og líka er mælt með til að draga úr líkum á húðkrabbameini. Magnið af D-vítamíni sem er ráðlagt er mismunandi eftir aldri, sjá hér að neðan:

  • Fyrir ungbörn og börn á aldrinum eins árs til níu ára er ráðlagður skammtur 10 míkrógrömm (µg) á dag sem svara til 400 alþjóðlegra eininga (AE)

  • Fyrir 10 ára til 70 ára er ráðlagt að fá 15 µg á dag (600 AE) – á einnig við um barnshafandi konur

  • Fyrir 71 árs og eldri er ráðlagt að fá 20 µg á dag (800 AE)

Uppfærðar upplýsingar um D-vítamín

Nánari upplýsingar veita
Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri næringar
Jóhanna E. Torfadóttir, verkefnisstjóri næringar

Ítarefni
Ráðleggingar um mataræði
Ráðlagðir dagskammtar (RDS) fyrir vítamín og steinefni