Fara beint í efnið

20. nóvember 2019

Sýkingavarnir gegn ónæmum bakteríum

Sýklalyfjaónæmi í bakteríum er vaxandi vandamál í heiminum bæði á sjúkrastofnunum og úti í samfélögunum.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Sýklalyfjaónæmi í bakteríum er vaxandi vandamál í heiminum bæði á sjúkrastofnunum og úti í samfélögunum. Sýkingar af völdum slíkra baktería eru ekki endilega alvarlegri en það getur verið erfiðara og dýrara að meðhöndla þær og því til mikils að vinna að koma í veg fyrir dreifingu þeirra.

Smitleiðir sýklalyfjaónæmra baktería eru þær sömu og næmra baktería. Það eru fyrirliggjandi haldgóðar upplýsingar um hvernig best er að draga úr dreifingu sýkla og rjúfa smitleiðir á sjúkrahúsum, heilbrigðisstofnunum og annars staðar en það er auk almenns hreinlætis einkum gert með:

  • Góðum handþvotti eftir snertingu við aðra eða snertingu við óhreint yfirborð.

  • Réttri notkun hlífðarbúnaðar gegn skvettum og íringu.

  • Þrifum og sótthreinsun þar sem þess er þörf.

  • Að aðskilja hreinan búnað og hjálpartæki frá óhreinum.

Sóttvarnalæknir hefur látið útbúa fræðslumyndbönd um sýkingavarnir sem einkum eru ætluð heilbrigðisstarfsmönnum en eru einnig gagnleg almenningi. Myndböndin fjalla um handhreinsun; hlífðarbúnað; ónæmar bakteríur; einangrun og grundvallarvarúð gegn sýkingum.

Allir; almennir borgarar, sjúklingar, aðstandendur, heimsóknargestir á sjúkrahúsum og starfsfólk, þurfa að taka þátt í að draga úr dreifingu ónæmra baktería á sjúkrahúsum, heilsugæslu og öðrum heilbrigðisstofnunum og úti í samfélaginu.

Munum: Vandaður handþvottur og þurrkun þeirra er mikilvægasta baráttutækið gegn dreifingu ónæmra baktería.

Sóttvarnalæknir