30. júní 2020
30. júní 2020
Rangárþing eystra gerist Heilsueflandi samfélag
Rangárþing eystra varð formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi (HSAM) þann 25. júní sl. þegar Lilja Einarsdóttir sveitarstjóri og Alma D. Möller landlæknir undirrituðu samning þess efnis í Hvolsskóla á Hvolsvelli.
Rangárþing eystra varð formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi (HSAM) þann 25. júní sl. þegar Lilja Einarsdóttir sveitarstjóri og Alma D. Möller landlæknir undirrituðu samning þess efnis í Hvolsskóla á Hvolsvelli.
Viðstaddir voru m.a. kjörnir fulltrúar, starfsfólk sveitarfélagsins, fulltrúar íþróttahreyfingarinnar og ungu kynslóðarinnar. Börn frá leikskólanum Örk, sem er Heilsueflandi leikskóli, sungu fyrir gesti.
Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að vinna með markvissum hætti að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Í slíku samfélagi er heilsa og líðan íbúa í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum. Starf Heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskóla sem og Heilsueflandi vinnustaða er mikilvægur liður í og styður við starf Heilsueflandi samfélags. Með innleiðingu Heilsueflandi samfélags vinna sveitarfélög einnig m.a. að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Rangárþing eystra er 31. sveitarfélagið sem gerist Heilsueflandi samfélag og búa nú 92,7% landsmanna í slíku samfélagi.
Nánar um Heilsueflandi samfélag
Nánar um lýðheilsuvísa