Fara beint í efnið

4. desember 2019

Nýjungar á Mínum síðum á heilsuvera.is

Embætti landlæknis vekur athygli á nýjum aðgerðum sem bæst hafa við á Mínar síður á heilsuvera.is. Má þar nefna aðgang verðandi mæðra að eigin rafrænni mæðraskrá, birtingu á dagsetningum yfir innlagnir á sjúkrahús og dagsetningu á komu á heilsugæslustöð ef viðkomandi heilbrigðisstofnun hefur tengst Heilsuveru.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Embætti landlæknis vekur athygli á nýjum aðgerðum sem bæst hafa við á Mínar síður á heilsuvera.is.

Má þar nefna aðgang verðandi mæðra að eigin rafrænni mæðraskrá, birtingu á dagsetningum yfir innlagnir á sjúkrahús og dagsetningu á komu á heilsugæslustöð ef viðkomandi heilbrigðisstofnun hefur tengst Heilsuveru. Auk þess geta forsjáraðilar barna, sem ekki hafa sama lögheimili og barnið, nú snúið sér til embættisins til að sækja um aðgang að upplýsingum barns síns á Heilsuveru. Einnig munu hreyfiseðlar tengjast Heilsuveru á næstunni. 

Aðgangur að rafrænni mæðraskrá

Nú hafa allar verðandi mæður, sem mætt hafa í sína fyrstu skoðun, aðgang að sinni mæðraskrá á Mínum síðum á heilsuvera.is. Aðgangur er m.a. að skoðunarsögu, mælingum sem framkvæmdar eru í mæðraskoðun, greiningu á blóðflokki og aðgangur að mynd þegar fósturómun hefur farið fram.

Dagsetningar á innlögnum og komum

Nú birtast dagsetningar yfir innlagnardag á sjúkrahús og komu á heilsugæslustöð í Heilsuveru, að því gefnu að sjúkrahúsið hafi tengingu við Heilsuveru. Síðar er fyrirhugað að hægt verði að lesa sjúkraskrárupplýsingar sem tengjast innlögn á sjúkrahús og komum á heilsugæslustöð.

Aðgangur forsjáraðila að upplýsingum sinna barna sem ekki eiga sama lögheimili

Þegar barn yngra en 16 ára deilir ekki sama lögheimili og annar forsjáraðili þess getur Heilsuvera ekki sótt upplýsingar um staðfestingu á forsjá. Heilsuvera sækir upplýsingar um forsjáraðila til Þjóðskrár Íslands sem miðlar upplýsingum eftir svo kölluðu fjölskyldunúmeri, en það númer tengir saman foreldra og barn sem deila sama lögheimili. Ekki er í dag til lagaheimild fyrir Þjóðskrá til að miðla þessum upplýsingum á annan máta. Hins vegar eru lög um Þjóðskrá Íslands í endurskoðun og bíða nú afgreiðslu á Alþingi. Ef og þegar lögin verða samþykkt mun Þjóðskrá geta miðlað forsjárupplýsingum rafrænt til Heilsuveru og munu þá báðir forsjáraðilar fá sjálfkrafa aðgang að upplýsingum sinna barna í Heilsuveru. Frá og með miðjum desember munu forsjáraðilar sem ekki hafa sama lögheimili og barn geta snúið sér til Embættis landlæknis og með því að sýna óvéfengjanlega fram á forræði verður hægt að veita þeim aðgang að upplýsingum barna sinna á heilsuvera.is

Hreyfiseðlar

Þeir einstaklingar sem munu fá ávísað hreyfiseðlum á heilsugæslustöð sinni munu væntanlega hafa aðgang að hreyfisögu sinni í Heilsuveru öðru hvoru megin við áramótin.

Auður Harðardóttir, verkefnastjóri rafrænna heilbrigðislausna