31. ágúst 2020
31. ágúst 2020
Netspjall covid.is tekið í notkun
Netspjall covid.is var í dag tekið í notkun en það verður einnig aðgengilegt á COVID-19 síðu landlaeknir.is.
Netspjall covid.is var í dag tekið í notkun en það verður einnig aðgengilegt á COVID-19 síðu landlaeknir.is. Netspjallið verður opið kl. 09:00-17:00 dagana 31. ágúst – 4. september.
Eftir mánudaginn 7. september verður netspjallið opið mánudaga til fimmtudaga 09:00-17:00 en föstudaga til sunnudaga kl. 10:00-18:00.
Markmiðið með þessari nýju lausn er að þjónusta fyrirspurnir sem tengjast COVID-19 hér á landi. Netspjallið er sett upp til að straumlínulaga og auka þjónustu við almenning, ásamt því að einfalda vinnu sérfræðinga sem starfa á ólíkum sviðum en sinna verkefnum sem tengjast COVID-19. Í flestum tilfellum verður hægt að leysa mál í netspjallinu en í öðrum tilfellum þarf að beina fyrirspurnum áfram til þeirra sem hafa sérþekkingu á málaflokknum.
Netspjall Heilsuvera.is mun áfram taka á móti fyrirspurnum sem tengjast almennu heilsufari og þjónustu heilsugæslunnar.
Til þessa hafa landlæknir og almannavarnardeild ríkislögreglustjóra svarað fyrirspurnum varðandi COVID-19 í gegnum tölvupóst, síma og samfélagsmiðla en vegna fjölda fyrirspurna sem berast og ólíkra málaflokka, var orðið brýnt að finna lausn sem safnar svörum við ólíkum spurningum sem brenna á fólki og ekki er hægt að finna svör við á vefnum covid.is.
Við mælum með að fara fyrst á covid.is (sem er á 10 tungumálum auk íslensku) og á Spurningar og svör á vef landlæknis. Ef þar finnst ekki svar við spurningunni er hægt að fara í netspjall covid.is.