Fara beint í efnið

4. mars 2020

Mikilvæg tilkynning frá embætti landlæknis

Nú eru miklar annir hjá embætti landlæknis. Auk starfsmanna sóttvarnasviðs, sóttvarnalæknis og landlæknis sinnir fjöldi annarra starfsmanna verkefnum sem tengjast viðbúnaði vegna veirusjúkdómsins COVID-19.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Nú eru miklar annir hjá embætti landlæknis.

Auk starfsmanna sóttvarnasviðs, sóttvarnalæknis og landlæknis sinnir fjöldi annarra starfsmanna verkefnum sem tengjast viðbúnaði vegna veirusjúkdómsins COVID-19. 

Starfsmenn gera sitt ítrasta til að sinna einnig öðrum mikilvægum verkefnum en ljóst er að grípa þarf til forgangsröðunar. Málsmeðferð vissra erinda mun því lengjast og verða hlutaðeigandi upplýstir til samræmis. Fólk er beðið um að sýna biðlund þeirri fordæmalausu stöðu sem uppi er.

Þau verkefni sem verða í forgangi eru, auk sóttvarna og lýðheilsumála þeim tengd, eftirlit og ráðgjöf vegna heilbrigðisþjónustu, rekstur og viðhald rafrænna kerfa og grunna, veiting starfsleyfa heilbrigðisstétta, símsvörun og rekstur embættisins. Að sjálfsögðu verður öðrum brýnum málum sem upp kunna að koma sinnt.

Eindregið er óskað eftir að þeir sem leita upplýsinga í tengslum við COVID-19 nýti sér upplýsingar á heimasíðu embættis landlæknis, fremur en að hringja í embættið. Ef einstaklingar sem gætu hafa verið útsettir fyrir smiti, t.d. hafa verið á áhættusvæði eða umgengist smitaða, finna fyrir veikindum er þeim bent á að hringja í síma 1700 (fyrir erlend símanúmer +354 544-4113) eða sína heilsugæslu varðandi nánari upplýsingar og hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið.