Fara beint í efnið

25. maí 2018

Meðganga og parasetamól

Nýleg rannsókn í Noregi sem náði til 112 þúsund mæðra sýnir fram á að börn þeirra mæðra sem notuðu parasetamól á meðgöngu, í lengri tíma (meira en 29 daga), séu líklegri til að greinast með ADHD (1).

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Nýleg rannsókn í Noregi sem náði til tæplega 113 þúsund barna sýnir fram á að börn þeirra mæðra sem notuðu parasetamól á meðgöngu, í lengri tíma (meira en 29 daga), séu líklegri til að greinast með ADHD (1).

Í rannsókninni kom fram að konur sem notuðu lyfið í langan tíma, voru meira en tvisvar sinnum líklegri til að eignast börn með ADHD en mæður sem tóku ekki lyfið á meðgöngu. Rannsóknin sýndi jafnframt að hófleg notkun parasetamóls á meðgöngu hafði ekki marktæk áhrif.

Á Íslandi er sala á hreinu parasetamóli (Panodil, Paratabs, Pinex, Paracet, Dolorin og fleiri) minni en á hinum Norðurlöndunum og litlar pakkningar þessara lyfja eru seldar án lyfseðils. Hins vegar eru ávísanir parasetamóls í blöndum með t.d. kódeini mun fleiri hér á landi (2). Árið 2017 fengu 24 þúsund karlar og 33 þúsund konur ávísað Parkódíni og/eða Parkódín forte og því er ljóst að notkun lyfjanna er mjög almenn hér á landi (3). Á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum er notkun Parkódíns og Parkódín forte (eða sambærilegum blöndum lyfjanna) meiri meðal kvenna en mun færri fá ávísað þar en hér á landi; sex sinnum fleiri notuðu parasetamól/kódein lyfin hér á landi en í Svíþjóð árið 2017.

Hver tafla af Parkodín forte/Parkódíni inniheldur 500 mg af parasetamóli en ofskömmtun þess getur t.d. haft skaðleg áhrif á lifur sem í versta falli getur leitt til lifrarbilunar (4).

Þessi mikla notkun parasetamóls á Íslandi getur haft hættur í för með sér, samanber ofangreint.

Lyfjateymi landlæknis:
Magnús Jóhannsson læknir
Jón Pétur Einarsson lyfjafræðingur
Ólafur B. Einarsson sérfræðingur

Heimildir:
1. Prenatal Exposure to Acetaminophen and Risk of ADHD
2. Nordic Medico-Statistical Committee (NOMESCO)
3. Lyfjagagnagrunnur landlæknis
4. Sérlyfjaskrá Lyfjastofnunar