Fara beint í efnið

7. desember 2018

Margir sem ofnota svefnlyf á Íslandi

Ofnotkun svefnlyfja er mikið vandamál á Íslandi, bæði eru of margir einstaklingar að nota svefnlyf, þau eru notuð of lengi og oft í of stórum skömmtum.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Ofnotkun svefnlyfja er mikið vandamál á Íslandi, bæði eru of margir einstaklingar að nota svefnlyf, þau eru notuð of lengi og oft í of stórum skömmtum. Með langvarandi notkun getur myndast þol fyrir lyfjunum þannig að skammtar stækka. Þrátt fyrir skammtaaukningu er ekki tryggt að svefnvandi lagist en líkur á aukaverkunum vaxa.

Á liðnum 12 mánuðum fengu 34 þúsund einstaklingar ávísað svefnlyfjum og eru hlutfallslega fleiri sem nota svefnlyf hér á landi en víða annarsstaðar sem endurspeglar mikla notkun hér á landi.

Samkvæmt lyfjagagnagrunni landlæknis virðast konur eiga frekar við vanda að stríða vegna svefnlyfja en 64 konur og 35 karlar fengu ávísað sem samsvarar fjórföldum skammti eða meira hvern dag á liðnu ári hér á landi.

Einstaklingar sem eru komnir á svona stóra skammta gætu flestir þurft aðstoð frá fagaðilum til að venja sig af lyfjunum.

Algengasta svefnlyfið er zópíklón (t.d. Imovane) en 14149 konur og 8294 karlar hafa fengið ávísað lyfinu á þessu ári. Afleiðing ofnotkunar lyfja eins og Imovane getur birst bæði í takmörkuðum lífsgæðum einstaklinga en einnig auknum líkum á alvarlegum slysum.

Lyfjateymi Embættis landlæknis
Ólafur B. Einarsson
Jón Pétur Einarsson
Andrés Magnússon

*Heimild: nomesco og lyfjagagnagrunnur