Fara beint í efnið

20. janúar 2020

Lungnabólga í Kína - hópsýking af völdum kórónaveiru

Þann 13.1.2020 vakti sóttvarnalæknir athygli á hópsýkingu lungnabólgu í Kína af völdum nýrrar kórónaveiru. Að undanförnu hafa bæst við ný tilfelli sem nánast öll má rekja til matarmarkaðarins í Wuhan borg í Kína.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Þann 13.1.2020 vakti sóttvarnalæknir athygli á hópsýkingu lungnabólgu í Kína af völdum nýrrar kórónaveiru. Að undanförnu hafa bæst við ný tilfelli sem nánast öll má rekja til matarmarkaðarins í Wuhan borg í Kína. Þar hefur veiran fundist í ýmsum umhverfissýnum.

Veiran hefur nú verið staðfest hjá um 50 einstaklingum og tveir hafa látist. Enn sem komið er hefur smit milli manna ekki verið staðfest en líklegt er að fleiri einstaklingar hafi sýkst en ekki verið greindir.

Ýmis lönd hafa tekið upp skimanir á flugvöllum hjá farþegum sem koma frá Kína en ekki er ástæða til slíks hér á landi. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir auk þess ekki með neinum ferðatakmörkunum frá og til Kína né neinum verslunarhindrunum.

Sóttvarnalæknir vill hvetja einstaklinga á ferðalögum erlendis, sérstaklega í Kína að:

  • Gæta vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti.

  • Forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni.

  • Forðast samneyti við villt dýr eða dýr á almennum mörkuðum.

  • Nota klút fyrir vit við hnerra þegar um kvefeinkenni er að ræða og þvo hendur reglulega.

  • Láta heilbrigðisstarfsmenn vita um ferðir sínar ef einstaklingar þurfa að leita til heilbrigðiskerfisins hér á landi.

Starfsmenn heilbrigðiskerfisins á Íslandi hafa verið upplýstir um þessa nýju veirusýkingu og þeir beðnir um að vera á varðbergi ef til þeirra leita veikir einstaklingar sem nýlega hafa verið á ferðalagi í Kína.

Nánar:

Sóttvarnalæknir