13. janúar 2020
13. janúar 2020
Hópsýking lungnabólgu í Kína af völdum nýrrar veiru
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) hafa vakið athygli á hópsýkingu lungnabólgu í Wuhan borg í suður Kína að undanförnu.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) hafa vakið athygli á hópsýkingu lungnabólgu í Wuhan borg í suður Kína að undanförnu. Á tímabilinu 31. desember 2019 til dagsins í dag hefur sýkingin verið staðfest hjá 41 einstaklingi og einn látist. Allir virðast hafa smitast á matarmarkaði í Wuhan borg (Seafood City market) en ekkert smit á milli manna hefur verið staðfest.
Svo virðist sem lungnabólgan sé orsökuð af nýrri kórónaveiru sem er frábrugðin þeim kórónaveirum sem orsökuðu SARS (Severe acute respiratory syndrome) í suður Kína (og fleiri löndum) á árunum 2002-2003 og MERS (Middle East respiratory syndrome) sem greinst hefur í Mið-Austurlöndum frá 2012. Báðar þessar sýkingar hafa valdið dauða hjá mörg hundruðum einstaklinga. Ekkert bóluefni er til við sýkingunni og engin veirulyf.
Að svo stöddu er ekki ástæða til neinna sértækra aðgerða og ekki ástæða til ferðatakmarkana til suður Kína.
Einstaklingar sem koma hingað til lands frá Wuhan borg í Kína með kvef hósta og hita eru beðnir um að upplýsa heilbrigðisstarfsmenn um sínar ferðir. Ekki er þörf á að allir einstaklingar leiti til heilbrigðiskerfisins sem nýlega hafa verið í Kína og fá kvef eða hósta. Einungis þeir sem veikjast alvarlega eða sem áhyggjur hafa af sínum veikindum leiti til heilbrigðiskerfisins. Upplýsingum um veikindin í Kína hefur verið dreift til heilsugæslunnar og til smitsjúkdómalækna.
Sóttvarnalæknir