27. maí 2019
27. maí 2019
Hrunamannahreppur gerist Heilsueflandi samfélag
Hrunamannahreppur varð formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi (HSAM) þann 23. maí sl. þegar Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri og Alma D. Möller landlæknir undirrituðu samning þess efnis í fallegum skógarlundi á Flúðum.
Hrunamannahreppur varð formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi (HSAM) þann 23. maí sl. þegar Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri og Alma D. Möller landlæknir undirrituðu samning þess efnis í fallegum skógarlundi á Flúðum.
Viðstaddir voru m.a. sveitarstjórnarfólk og nemendur Flúðaskóla. Einnig tóku þátt fulltrúar fjölmargra hagaðila sem samhliða skrifuðu undir samkomulag við Hrunamannahrepp vegna innleiðingar HSAM á svæðinu n.t.t. skólastjóri Flúðaskóla, leikskólastjóri Undralands, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Zero, forstöðumaður íþróttamannvirkja Hrunamannahrepps og fulltrúar Ungmennafélags Hrunamanna, Akstursíþróttafélagsins Hreppakappa, Björgunarfélagsins Eyvindar, Skógræktarfélags Hrunamanna, Landgræðslufélags Hrunamanna, sóknarnefndar Hrunakirkju og Hrepphólakirkju og Ársæls, áhugamannafélags um verndun sæluhúsa í afrétt Hrunamanna.
Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að vinna með markvissum hætti að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Í slíku samfélagi er heilsa og líðan íbúa í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum. Með innleiðingu Heilsueflandi samfélags vinna sveitarfélög einnig að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Hrunamannahreppur er 25. sveitarfélagið sem gerist Heilsueflandi samfélag og búa nú um 86,4% landsmanna í slíku samfélagi.
Nánar um Heilsueflandi samfélag
Nánar um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Gígja Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags