Fara beint í efnið

7. maí 2018

Hefja samstarf um heilsueflingu eldri borgara

Embætti landlæknis og Janus heilsuefling hafa undirritað samstarfssamning vegna Evrópuverkefnisins JA CHRODIS+, sem embættið er aðili að.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Embætti landlæknis og Janus heilsuefling hafa undirritað samstarfssamning vegna Evrópuverkefnisins JA CHRODIS+, sem embættið er aðili að.

Meginmarkmið verkefnisins er að styðja Evrópulönd í að innleiða árangursríkt starf á sviði heilsueflingar, forvarna og meðferðar á langvinnum sjúkdómum.

JA CHRODIS+ hófst í september árið 2017 og mun standa til loka ágúst 2020. Alls taka 42 aðilar frá 21 Evrópulandi þátt. Embætti landlæknis hafði áður milligöngu um að tilnefna Fjölþætt heilsurækt fyrir eldra fólk sem dæmi um gott starf á sviði heilsueflingar og forvarna fyrir eldra fólk og var verkefnið metið og samþykkt í gagnagrunn Evrópusambandsins.

Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags, sem Embætti landlæknis stendur fyrir í samstarfi við sveitarfélög og fleiri, er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa, þar með talið eldri borgara.

Samstarf Embætti landlæknis og Janus heilsuefling vegna JA CHRODIS+ fellur vel að áherslum Heilsueflandi samfélags. Það felur í sér frekari þróun og innleiðingu á verkefninu Fjölþætt heilsurækt fyrir eldra fólk á Íslandi auk þess að styðja við innleiðingu þess á Spáni og í Litháen. Frekari þróun Heilsueflandi samfélags með tilliti til þarfa eldra fólks er einnig liður í samstarfinu.