3. maí 2021
3. maí 2021
Greinargerð um stöðu á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum gefin út fyrir árið 2020
Embætti landlæknis hefur tekið saman greinargerð þar sem fjallað er um stöðu á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum á árinu 2020. Á árinu 2020 fluttist 991 einstaklingur á hjúkrunarheimili til varanlegrar búsetu. Af þeim biðu 38% lengur en 90 daga eftir rýminu, 62% biðu því í 90 daga eða skemur. Markmið stjórnvalda var að 65% fengju hjúkrunarrými innan 90 daga á árinu 2020.
Embætti landlæknis hefur tekið saman greinargerð þar sem fjallað er um stöðu á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum á árinu 2020.
Á árinu 2020 fluttist 991 einstaklingur á hjúkrunarheimili til varanlegrar búsetu. Af þeim biðu 38% lengur en 90 daga eftir rýminu, 62% biðu því í 90 daga eða skemur. Markmið stjórnvalda var að 65% fengju hjúkrunarrými innan 90 daga á árinu 2020.
Í greinargerðinni er fjallað um stöðu á biðlistum í hverju heilbrigðisumdæmanna sjö. Fjöldi á biðlista hélt áfram að lækka á höfuðborgarsvæðinu sem og hlutfall þeirra sem biðu lengur en 90 daga. Líkt og á árinu 2019 var biðtími stystur á Suðurlandi.
Greinargerðin fjallar einnig um legur fólks með gilt færni- og heilsumat á Landspítala á undanförnum mánuðum. Ítrekað hefur myndast alvarlegt ástand á spítalanum sem meðal annars má rekja til skorts á hjúkrunarrýmum. Brýnt er að sjúkrahúsrými séu nýtt fyrir sjúklinga sem þurfa á sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu að halda. Liður í því er að tryggja einstaklingum í þörf fyrir varanlegt úrræði hjúkrunarrými sem fyrst. Stefnt er að því að opna tæp 500 ný hjúkrunarrými á landsvísu fyrir árið 2025.
Ljóst er að ráðast þarf í heildstæða skoðun á öldrunarþjónustu þar sem jafnframt er litið til annarra úrræða en hjúkrunarrýma. Sú vinna er að hefjast og verður þjónusta við vaxandi hóp aldraðra til umræðu á næsta Heilbrigðisþingi. Embætti landlæknis fagnar þeirri vinnu.
Nánari upplýsingar veitir
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, netfang kjartanh@landlaeknir.is