25. janúar 2019
25. janúar 2019
Fyrirmæli landlæknis um upplýsingaöryggi við veitingu fjarheilbrigðisþjónustu komin út
Fyrirmæli landlæknis um upplýsingaöryggi við veitingu fjarheilbrigðisþjónustu hafa nú verið gefin út á vef embættisins. Fyrirmælin hafa verið undirrituð af ráðherra og bíða birtingar í Stjórnartíðindum. Með því öðlast þau stöðu reglugerðar.
Fyrirmæli landlæknis um upplýsingaöryggi við veitingu fjarheilbrigðisþjónustu hafa nú verið gefin út á vef embættisins. Fyrirmælin hafa verið undirrituð af ráðherra og bíða birtingar í Stjórnartíðindum. Með því öðlast þau stöðu reglugerðar.
Í lögum um landlækni og lýðheilsu nr. 41 frá árinu 2007 er kveðið á um að landlæknir geti gefið heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsmönnum almenn fagleg fyrirmæli um vinnulag, aðgerðir og viðbrögð af ýmsu tagi sem þeim er skylt að fylgja. Með fyrirmælum um upplýsingaöryggi við veitingu fjarheilbrigðisþjónustu er ætlunin að stuðla að öruggri notkun á tæknilausnum við veitingu fjarheilbrigðisþjónustu. Nýsköpun á sviði slíkra lausna er hröð og því voru kröfurnar skrifaðar með það að leiðarljósi að hamla ekki þeirri þróun, heldur tryggja að þær lausnir sem nýta skal tryggi örugga meðferð upplýsinga og auðkenningu notenda þeirra. Þá er stefnt að því að uppfæra kröfurnar í takt við þá þróun sem verður í upplýsingaöryggismálum. Leitast var við að hafa kröfurnar tæknilega hlutlausar, þ.e. ekki einblína á einstakar lausnir, heldur vísa til staðla og þekktra leiða til að tryggja upplýsingaöryggi.
Við veitingu fjarheilbrigðisþjónustu skal ætíð fylgja þeim kröfum sem settar eru fram í fyrirmælunum, en auk þess kröfum í persónuverndarlögum og öðrum lögum og fyrirmælum eftir því sem við á svo sem fyrirmælum landlæknis um öryggi og gæði sjúkraskrá.
Nánari upplýsingar veita
Ingi Steinar Ingason, teymisstjóri, rafrænnar sjúkraskrár, ingist@landlaeknir.is
Hólmar Örn Finnsson, persónuverndarfulltrúi, holmar@landlaeknir.is
Helga Margrét Clarke, verkefnastjóri fjarheilbrigðisþjónustu, helga.m.clarke@landlaeknir.is
Uppfært í október 2021.