Fara beint í efnið

24. september 2021

Flóahreppur gerist Heilsueflandi samfélag

Flóahreppur varð formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi (HSAM) þann 23. september sl. þegar Eydís Þ. Indriðadóttir sveitarstjóri og Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis undirrituðu samning þess efnis í Þingborg.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Flóahreppur varð formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi (HSAM) þann 23. september sl. þegar Eydís Þ. Indriðadóttir sveitarstjóri og Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis undirrituðu samning þess efnis í Þingborg. Viðstaddir voru m.a. sveitarstjórn og starfsfólk sveitarfélagsins, fulltrúar stýrihóps Flóahrepps fyrir HSAM starfið og síðast en ekki síst nemendur frá Flóaskóla og frá leikskólanum Krakkaborg en báðir þessir skólar eru Heilsueflandi skólar. Unga fólkið tók virkan þátt í athöfninni og svaraði meðal annars spurningunni hvað heilsa væri fyrir þeim. Ekki stóð á svörum og fangaði m.a. ungur nemandi Flóaskóla hugtakið frábærlega með einu orði eða ,,hæ".

Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að vinna með markvissum hætti að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Í slíku samfélagi er heilsa og líðan íbúa í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum. Starf Heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskóla, Heilsueflandi vinnustaða og heilsuefling eldri borgara er mikilvægur liður í starfi Heilsueflandi samfélags. Með innleiðingu Heilsueflandi samfélags vinna sveitarfélög meðal annars að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

_Eydís Þ. Indriðadóttir sveitarstjóri og Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis undirrita samninginn.

_

Flóahreppur er 35. sveitarfélagið sem gerist Heilsueflandi samfélag og búa nú um 93,6% landsmanna í slíku samfélagi.

Nánar um Heilsueflandi samfélag.

Nánar um lýðheilsuvísa.

Nánar um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Gígja Gunnarsdóttir, verkefnastjóri Heilsueflandi samfélags