Fara beint í efnið

8. janúar 2018

Endurskoðuð handbók fyrir leikskólaeldhús komin út

Komin er út á vegum Embættis landlæknis endurskoðuð Handbók fyrir leikskólaeldhús sem tekur mið af nýlegum ráðleggingum um mataræði. Handbókin er með hagnýtar ábendingar fyrir starfsfólk leikskóla um hollustu og samsetningu fæðunnar, matseðlagerð, fæðuofnæmi og fæðuóþol, matvendni, hreinlæti, innkaup og matarsóun svo eitthvað sé nefnt.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Komin er út á vegum Embættis landlæknis endurskoðuð Handbók fyrir leikskólaeldhús sem tekur mið af nýlegum ráðleggingum um mataræði. Handbókin er með hagnýtar ábendingar fyrir starfsfólk leikskóla um hollustu og samsetningu fæðunnar, matseðlagerð, fæðuofnæmi og fæðuóþol, matvendni, hreinlæti, innkaup og matarsóun svo eitthvað sé nefnt. Auk þessa er í henni tillaga að sex vikna matseðli ásamt nokkrum uppskriftum. Allir leikskólar á landinu munu fá eintak sent til sín nú í janúar þeim að kostnaðarlausu.

Faghópur á vegum Embættis landlæknis vann að endurskoðun handbókarinnar.

Handbókin er ætluð þeim sem útbúa mat fyrir börn í leikskóla eða hafa áhrif á hvaða matur er þar í boði. Mikilvægt er að sá matur sem í boði er sé í samræmi við Ráðleggingar um mataræði sem Embætti landlæknis gefur út. Tilgangurinn með útgáfunni er að auðvelda starfsfólki að gefa börnum hollan, góðan og öruggan mat sem er við þeirra hæfi þannig að þau vaxi og dafni sem best. Nú til dags verja flest börn meirihluta hversdagsins í leikskólanum og þar gefst því mjög gott tækifæri til að kenna þeim að njóta holls matar. Hluti af félagslegum þroska mótast við matarborðið þegar við borðum saman og því er mikilvægt að fullorðnir borði með börnunum, en þá gefst líka gott tækifæri til að kenna þeim góða borðsiði. Í handbókinni er sérstaklega hugað að fjölbreyttu fæðuvali, fiskmáltíðum, neyslu ávaxta og grænmetis, heilkornavara, auk vatnsdrykkju.

Í handbókinni eru því ekki eingöngu mikilvægar upplýsingar fyrir þá sem sjá um eldhúsið heldur allt starfsfólk leikskólans. Mikilvægt er að leikskólastjórar móti stefnu á sviði næringar og að starfsfólk hafi yfirsýn yfir næringu barna meðan á dvöl þeirra í leikskólanum stendur. Nauðsynlegt er að stjórnendur skólans og starfsfólk eldhúss fundi reglulega eftir þörfum til að fara yfir næringarstefnu leikskólans sem og starfsemi og skipulag eldhúss. Það er von embættisins að hún komi að gagni við að bjóða börnunum hollan og góðan mat við þeirra hæfi.

Handbókin var kynnt á málþingi um Heilsueflandi leikskóla og má hér sjá upptöku frá þeirri kynningu.

Nánari upplýsingar um Heilsueflandi leikskóla. 

Elva Gísladóttir og Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnisstjórar næringar hjá Embætti landlæknis