Fara beint í efnið

1. ágúst 2018

Drög að ráðleggingum um mataræði fyrir hrumt eða veikt eldra fólk til umsagnar

Embætti landlæknis hefur birt í samstarfi við Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum (RHLÖ) drög að ráðleggingum um mataræði fyrir hrumt eða veikt eldra fólk til umsagnar.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Embætti landlæknis hefur birt í samstarfi við Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum (RHLÖ) drög að ráðleggingum um mataræði fyrir hrumt eða veikt eldra fólk til umsagnar.

Ráðleggingunum er ætlað að auðvelda þeim störfin sem útbúa mat fyrir hrumt eða veikt eldra fólk eða sinna umönnun þeirra. Við gerð þessara ráðlegginga var stuðst við ráðleggingar frá European Society for Clinical Nutrition and Metabolism (ESPEN), norrænar næringarráðleggingar og ráðleggingar um mataræði fyrir hruma og veika frá hinum Norðurlöndunum.

Fæði, sem eldra fólki stendur til boða á hjúkrunarheimilum, rétt eins og í heimahúsum, hefur áhrif á heilsu þeirra og líðan. Matarlyst minnkar oft með hækkandi aldri en þörf fyrir vítamín og steinefni er nánast óbreytt og próteinþörfin aukin. Því þurfa öll næringarefni að vera til staðar í minni matarskömmtum. Það gilda því aðrar ráðleggingar um mataræði fyrir hrumt eða veikt eldra fólk heldur en þá sem frískari eru.

Til að tryggja að næringarþörf þessa hóps sé fullnægt þarf að bjóða upp á fjórar til sex næringarríkar máltíðir daglega, þar af tvær heitar máltíðir. Næringarútreikningar á matseðlum hafa sýnt að súpur og brauðmáltíðir duga ekki sem aðalmáltíð til að uppfylla prótein- og orkuþörf yfir daginn. Allt hrumt eða veikt eldra fólk ætti að fá orku- og próteinþétt fæði og eru gefin dæmi í þessum ráðleggingum um hvernig hægt er að útbúa slíkar máltíðir. Hætta á vannæringu eykst með aldrinum, því er mikilvægt að fylgjast með næringarástandi og bregðast við ef út af ber.

Ráðleggingarnar eru unnar af faghópi með fulltrúum frá Embætti landlæknis, RHLÖ, Landspítala, Næringarstofu, Öldrunarráði Íslands, Sóltúni, Hrafnistu og Reykjavíkurborg.

Nú gefst tækifæri til að koma með athugasemdir við drög að ráðleggingunum og er gefinn frestur til 31. ágúst 2018 til að koma athugasemdum á framfæri.

Athugasemdir sendist til naering@landlaeknir.is merkt: „Eldra fólk".

Elva Gísladóttir og Hólmfríður Þorgeirsdóttir, næringarfræðingar, Embætti landlæknis

Dr. Ólöf Guðný Geirsdóttir, dósent hjá Matvæla- og næringarfræðideild HÍ & verkefnastjóri hjá Rannsóknarstofu HÍ & LSH í öldrunarfræðum.