Fara beint í efnið

31. maí 2019

Dagur án tóbaks er í dag 31. maí

Alþjóðlegur dagur án tóbaks er í dag 31. maí. Á þessum árlega baráttudegi gegn tóbaksnotkun er athygli vakin á þeim skaða sem hlýst af notkun tóbaks og einnig óbeinum reykingum. Að auki felst í deginum sú hvatning að nota ekkert tóbak í hvaða formi sem er.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Alþjóðlegur dagur án tóbaks er í dag 31. maí. Á þessum árlega baráttudegi gegn tóbaksnotkun er athygli vakin á þeim skaða sem hlýst af notkun tóbaks og einnig óbeinum reykingum. Að auki felst í deginum sú hvatning að nota ekkert tóbak í hvaða formi sem er.

Dagur án tóbaks er í ár helgaður tóbaki og lungnaheilsu (Tobacco and lung health) og er athyglinni beint að þeim margvíslega skaða sem tóbaksreykur veldur á lungum manna um allan heim. Tóbaksreykur er meginorsök lungnakrabbameina en tvö af hverjum þremur dauðsföllum af þeirra völdum má rekja til reykinga. Óbeinar reykingar valda einnig hættu á lungnakrabbameini. Að hætta að reykja getur dregið úr hættunni að fá lungnakrabbamein og tíu árum síðar getur hættan verið orðin helmingi minni borið saman við þá einstaklinga sem enn reykja. Aðstoð við að hætta að nota tóbak er árangursríkasta leiðin til að koma í veg fyrir skaða af völdum tóbaksnotkunar og á það sérstaklega við ef hætt er snemma á lífsleiðinni.

Reykingar eru helsta orsök öndunarfærasjúkdóma. Fyrir ungt fólk sem byrjar snemma að reykja er aukin hætta að þróa með sér öndunarfærasjúkdóma þegar lungun eru enn að þroskast. Ung börn sem eru útsett fyrir tóbaksreyk eiga á hættu að fá skerta lungnastarfsemi en í því felst meðal annars að þau eru í verri stöðu gagnvart sjúkdómum á borð við astma, lungabólgu og bronkítis.

Áætlað er að um 154.000 börn deyi árlega um heim allan fyrir 5 ára aldur vegna öndunarfærasjúkdóma af völdum óbeinna reykinga. Mörg börn glíma einnig við heilsufarsafleiðingar óbeinna reykinga þegar þau verða eldri og eru líklegri til að þróa með sér öndunarfærasjúkdóma síðar á lífsleiðinni.

Tóbaksvarnir sem miða að því að vernda þau sem ekki reykja

Unnið hefur verið markvisst að tóbaksvörnum hér á landi frá því að fyrstu rannsóknir birtust um skaðsemi reykinga og hefur meginmarkmiðið ætíð verið að sporna við nýliðun í hópi þeirra sem reykja. Eftir því sem árangur hefur náðst hafa áherslur beinst að því að vernda það fólk sem ekki reykir fyrir tóbaksreyk annarra.

Innandyra er hægt að flokka tóbaksreyk sem hættulega mengun sem inniheldur yfir 7000 efnasambönd þar sem vitað er að 69 þeirra geta valdið krabbameini. Tóbaksreykur er ekki alltaf sýnilegur og getur jafnvel verið lyktarlaus. Þrátt fyrir það getur hann verið til staðar í upp undir 5 klukkustundir og aukið líkur þeirra sem anda honum að sér á að fá lungnakrabbamein, öndunarfærasjúkdóma og skerta lungnastarfsemi.

Aðstoð við að hjálpa fólki að hætta að nota tóbak er mikilvægur hluti tóbaksvarna. Nú er hafinn undirbúningur hjá Embætti landlæknis að „appi“ sem er hannað til að styðja við þá sem vilja að hætta að nota tóbak. „Appið“ verður gjaldfrjálst og aðgengilegt fyrir alla m.a. á www.heilsuvera.is

Stöðugt dregur úr tíðni daglegra reykinga. Nýgengi krabbameina af völdum reykinga fer lækkandi

Samkvæmt tölum frá Krabbameinsskrá Íslands, sem geymir upplýsingar um öll krabbamein á Íslandi frá árinu 1955, er komin niðursveifla á nýgengi lungnakrabbameins síðustu árin.

Myndin sýnir árlegt aldursstaðlað nýgengi lungnakrabbameins fyrir allan aldur. Sýnt sem svokallað hlaupandi nýgengi þar sem hver punktur sýnir 5 ára meðaltal.

Samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsskrá greindust flest tilfellin í kringum árið 2013. Þá greindust yfir 180 manns, 86 karlar og 96 konur með lungnakrabbamein. Í síðasta punktinum á myndinni eru að meðaltali 163 tilfelli á ári, 73 karlar og 90 konur.

Þróun lungnakrabbameins hér á landi

Hér á landi fylgdi seinni heimsstyrjöldinni stóraukið framboð af tóbaki, einkum sígarettum. Á þeim tíma jókst neysla tóbaks hröðum skrefum hér á landi. Í september 1950 birtust fyrstu rannsóknir sem tengdu reykingar sem orsakaþátt við lungnakrabbamein og í kjölfarið fylgdu rannsóknir sem sýndu hærri dánartíðni þeirra sem reykja.

Tíðni daglegra reykinga jókst fram til ársins 1985 þegar draga tók úr reykingum. Í kringum árið 1990 mældust daglegar reykingar fullorðinna yfir 30% en nú á miðju ári 2019 mælast þær 7,3%. Þessi minnkun á reykingum hefur haft áhrif á nýgengi lungnakrabbameins, samkvæmt tölum frá Krabbameinsskrá. Nýgengið jókst hjá karlmönnum fram til 1985, hélst nokkuð stöðugt í mörg ár en hefur farið lækkandi frá aldamótunum. Á meðal kvenna jókst nýgengið einnig fram til 1985 á sama hraða og hjá körlunum, þá tók við tímabil með hægari hækkun fram til 2012 en síðan þá hefur nýgengið hjá konum farið lækkandi.

Frekari tölulega gögn um tíðni krabbameina og tíðni reykinga má nálgast á þessum síðum:

Krabbameinsskrá 
Tölfræði - tóbaksnotkun