21. desember 2021
21. desember 2021
Bráðabirgðatölur fyrstu sex mánaða ársins 2021
Á vef embættis landlæknis hafa verið birtar bráðabirgðatölur um fjölda andláta vegna eitrana ávana- og fíkniefna sem og lyfja, svo nefndra lyfjatengdra andláta, á fyrstu sex mánuðum ársins 2021.
Á vef embættis landlæknis hafa verið birtar bráðabirgðatölur um fjölda andláta vegna eitrana ávana- og fíkniefna sem og lyfja, svo nefndra lyfjatengdra andláta ((/servlet/file/store93/item44338/Lyfjatengd andlat_halfs_ars_tolur_UT_11.11.2021.xlsx)), á fyrstu sex mánuðum ársins 2021. Þjóðir heims hafa ekki sammælst um eina alþjóðlega tölfræðilega skilgreiningu á lyfjatengdum andlátum. Embætti landlæknis notar skilgreiningu sem lögð var til af norrænum vinnuhópi árið 2017. Samkvæmt þeirri skilgreiningu eru andlát þar sem eitrun af völdum ávana- og fíkniefna, sem og lyfja, er undirliggjandi dánarorsök, án tillits til ásetnings, skilgreind sem lyfjatengd andlát. Undir þessa skilgreiningu falla því óhappaeitranir (ICD-10: X40-X44), vísvitandi sjálfseitrun (ICD-10: X60-X64) og eitranir þar sem ásetningur er óviss (ICD-10: Y10-Y14).
Samkvæmt dánarmeinaskrá embættis landlæknis er fjórðungur lyfjatengdra andláta síðustu tíu árin sjálfsvíg (vísvitandi sjálfseitrun). Stærstur hluti lyfjatengdra andláta fellur undir óhappaeitranir, um tveir þriðju síðastliðinn áratug. Fyrstu sex mánuði ársins 2021 voru 83% lyfjatengdra andláta óhappaeitranir eða ásetningur óviss (20), og 17% sjálfsvíg (4) samkvæmt niðurstöðu réttarmeinafræðings.
Miðað við stærstu flokka dánarorsaka eru lyfjatengd andlát fá hér á landi. Þjóðin er fámenn og litlar breytingar á fjölda lyfjatengdra andláta valda því óhjákvæmilega nokkrum sveiflum í dánartíðni. Vegna þessa er mikilvægt að túlka tölur einstakra ára af varúð enda getur verið um tilviljanakennda sveiflu að ræða. Til þess að jafna sveiflur milli ára og draga fram langtímaþróun lyfjatengdra andláta getur verið heppilegra að notast við meðaltöl nokkurra ára heldur en tíðni hvers árs,
Sem fyrr eru flest lyfjatengd andlát vegna ópíóíða, hvort sem um er að ræða ólögleg ávana- og fíkniefni, lyf sem farið hafa í ólöglega dreifingu eða eru notuð í of stórum skömmtum af ásetningi eða fyrir slysni. Fjórtán andlát af 24 eru vegna ofskömmtunar ópíóíða fyrstu sex mánuði ársins. Má í þessu samhengi benda á mikilvægi góðs aðgengis að mótefni við eitrun af völdum ópíóíða. Í sumum tilvikum er dánarorsökin fleiri en eitt efni eða lyf. Athygli vekur að lyfjatengt andlát af völdum bensódíasepína hefur ekki verið skráð frá árinu 2018. Bensódíasepín eru töluvert mikið notuð lyf og andlát tengd þeim voru skráð á hverju ári frá 2008 til 2018.
Ávallt gildir að læknum ber að gæta sérstakrar varúðar við ávísun lyfja, ekki hvað síst ávana- og fíknilyfja. Á vef embættis landlæknis eru leiðbeiningar um góða starfshætti lækna við ávísun lyfja sem læknar hafa að leiðarljósi í starfi sínu.
Um tölfræði og flokkun
Tölur um dánarorsakir byggja á dánarvottorðum (og niðurstöðum réttarkrufninga þegar við á) einstaklinga sem áttu lögheimili á Íslandi við andlát. Dánarmein eru skráð af dánarvottorðum í dánarmeinaskrá embættis landlæknis og kóðuð samkvæmt nýjustu útgáfu og uppfærslum alþjóðlegrar tölfræðiflokkunar sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála (International Classification of Diseases, ICD). Frá árinu 1996 hafa dánarmein verið kóðuð eftir 10. útgáfu flokkunarkerfisins, ICD-10, og nýjustu uppfærslum hverju sinni. Tölfræði um dánarorsakir er birt árlega eftir að skráning og kóðun vottorða undangengins árs og gæðaprófunum er lokið.
Nánari upplýsingar veitir
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
netfang: kjartanh@landlaeknir.is