Fara beint í efnið

29. maí 2019

Bólusetning við kíghósta á meðgöngu

Sóttvarnalæknir mælir nú með bólusetningu barnshafandi kvenna við kíghósta með samsettu bóluefni með barnaveiki- og stífkrampabóluefnum (Boostrix eða Boostrix-polio skv. núgildandi samningum). Bólusetningin skal vera konunum að kostnaðarlausu eins og inflúensubólusetning á meðgöngu.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Sóttvarnalæknir mælir nú með bólusetningu barnshafandi kvenna við kikhósta með samsettu bóluefni með barnaveiki- og stífkrampabóluefnum (Boostrix eða Boostrix-polio skv. núgildandi samningum). Bólusetningin skal vera konunum að kostnaðarlausu eins og inflúensubólusetning á meðgöngu.

Kikhósti er nokkuð algengur hér á landi þrátt fyrir ágæta þátttöku í almennum bólusetningum. Hann greinist hér að einhverju marki flest ár en koma toppar á 2–5 ára fresti. Undanfarin 10 ár hafa börn undir 6 mánaða aldri greinst með kikhósta flest ár, rúmlega helmingur þeirra undir 3ja mánaða aldri þegar þau veiktust og þar af nokkur sem lágu alvarlega veik á sjúkrahúsi.

Síðasti skammtur af kikhóstabóluefni sem gefinn er í almennum bólusetningum hérlendis er við 14 ára aldur. Bóluefnið sem nú er notað, svokallað frumulaust bóluefni, veitir yfirleitt 5–10 ára vörn og því eru flestir fullorðnir einstaklingar hérlendis smitnæmir og geta borið sýkinguna til nýbura sem ekki hafa sjálfir verið bólusettir. Kikhóstasýking hjá eldri börnum og fullorðnum er yfirleitt á formi kvefs og fátt sem gefur til kynna að um hugsanlega hættulega sýkingu sé að ræða, þótt oft fylgi hin dæmigerðu hóstaköst sem auðvelda greiningu. Mjög ung börn geta hins vegar fengið lífshættuleg öndunarstopp og mikil hóstaköst sem geta þreytt þau svo að þau þurfi öndunaraðstoð á gjörgæslu eða vökudeild. Ef móðir er bólusett á öðrum eða þriðja þriðjungi meðgöngu myndar hún verndandi mótefni sem fylgjan flytur til barnsins frá 32. viku meðgöngu. Mótefnin geta varið barn frá fæðingu fram til um 6 mánaða aldurs en þá hafa flest börn sem bólusett eru skv. almennum bólusetningum á Íslandi myndað eigin vörn gegn kikhósta.

Mótefnaframleiðsla eftir kikhóstabólusetningu dettur fljótt niður og er því ekki æskilegt að bólusetja mjög snemma á meðgöngunni, en ef bólusetning hefur verið gerð snemma í meðgöngu vegna ferðalags er ekki tilefni til að bólusetja aftur á þeirri meðgöngu. Af sömu ástæðu er mælt með að bólusetja konu á hverri einustu meðgöngu, jafnvel þótt styttra en 2 ár geti þá liðið á milli skammta.

Sóttvarnalæknir