Fara beint í efnið

3. maí 2019

Alþjóðlegi handhreinsunardagurinn 5. maí

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur um langt árabil helgað 5. maí umfjöllun um mikilvægi handhreinsunar (handþvottar og handsprittunar) til að fyrirbyggja sýkingar, einkum í heilbrigðisþjónustu.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur um langt árabil helgað 5. maí umfjöllun um mikilvægi handhreinsunar (handþvottar og handsprittunar) til að fyrirbyggja sýkingar, einkum í heilbrigðisþjónustu. Þá minnir stofnunin á árveknisverkefni sín um „Clean care is safer care" sem mætti þýða á íslensku sem „Hreinlæti og heilbrigðisþjónusta fara hönd í hönd" og „Save lives: Clean your hands" sem útleggja má „Þrífðu hendur þínar – bjargaðu mannslífum".

Verkefnin hvetja til öruggari handhreinsunar þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu en brýna einnig öryggi í meðhöndlun blóðs, öryggi við innsprautanir og bólusetningar, til öruggra klínískra vinnubragða, til öruggari hreinlætisvenja og öruggari meðhöndlun úrgangs sem geri heilbrigðisþjónustuna hreinni og öruggari.

Framtíðarsýnin er að allir sem tengjast heilbrigðisþjónustu, stefnumótendur, starfsfólk, sjúklingar og stjórnendur, taki þátt í að gera heilbrigðisþjónustu öruggari.Allir eiga rétt á að fá hreina heilbrigðisþjónusta, hvort sem hún er veitt á heilsugæslustöð, sjúkrahúsi, hjúkrunarheimili, tannlæknastofu, í heimahúsi, í sjúkrabíl eða hátækni skurðstofu. Handhreinsun, handþvottur og handsprittun er í eðli sínu einföld og léttframkvæmanleg en hún er mikilvægur hluti stærri myndar sem miðar að því að fyrirbyggja sýkingar og útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.

Sóttvarnalæknir hvetur alla heilbrigðisstarfsmenn til að huga að ábyrgð sinni í þessum efnum. Einnig er hvatt til þess að stofnanir vinni að bættri handhreinsun starfsmanna sinna með því að bæta aðgengið að snyrtilegum og vel útbúnum handlaugum og handspritti og einnig að vinna að skipulegri fræðslu og eftirliti á handhreinsun starfsmanna.

Heilbrigðisstofnanir geta gerst aðilar að verkefnum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar með því að skrá sig til leiks og fengið aðgang að margvíslegu fræðsluefni.

Sóttvarnalæknir