Fara beint í efnið

18. nóvember 2019

Alþjóðleg vitundarvika Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO)

Í dag 18. nóvember 2019 hefst fimmta alþjóðlega vitundarvika Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um skynsamlega notkun sýklalyfja, „Antibiotic Awareness Week“.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Í dag 18. nóvember 2019 hefst fimmta alþjóðlega vitundarvika Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um skynsamlega notkun sýklalyfja, „Antibiotic Awareness Week“. Auk þess er 18. nóvember sérstaklega helgaður vitundarvakningu um sýklalyfjanotkun af Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC). Tilgangur þessarar vitundarvakningar er að minna almenning, stjórnvöld og heilbrigðisstarfsmenn á mikilvægi þess að nota sýklalyf skynsamlega og jafnframt að minna á þá ógn sem stafar af útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sem og aðrar alþjóðlegar stofnanir hafa lýst því yfir, að sýklalyfjaónæmi sé ein helsta heilbrigðisógn sem steðjar að mannkyninu í dag. Þó að sýklalyfjaónæmi sé minna á Íslandi en í mörgum öðrum löndum þá er mikilvægt að grípa hérlendis nú þegar til aðgerða sem hefta frekari útbreiðslu.

Á árinu 2017 skilaði starfshópur heilbrigðisráðherra greinargerð um hvernig best væri að hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería hér á landi. Þessar tillögur eru í anda einnar heilsu (One Health) sem þýðir að taka þarf á vandamálinu á fjölmargan hátt, bæði hvað varðar menn, dýr, fæðu og umhverfi. Á árinu 2019 hafa íslensk stjórnvöld lagt mikla áherslu á þennan málaflokk og í febrúar sl. lýstu heilbrigðis-, og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrar því yfir að fyrrgreindar tillögur starfshópsins mörkuðu opinbera stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki hér á landi. Auk þess sendi ríkisstjórnin frá sér yfirlýsingu í maí sl. um að Íslandi ætli sér að vera í fararbroddi í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi. Í framhaldi af þessum yfirlýsingum stjórnvalda þá hefur samvinna ýmissa stofnana og lykilaðila aukist til muna í þessum málaflokki hér á landi.

Einn helsti áhættuþáttur í útbreiðslu sýklalyfjaónæmis er notkun sýklalyfja bæði hjá mönnum og dýrum. Á undanförnum árum hefur notkun hjá mönnum hér á landi verið sú mesta á Norðurlöndum en um miðbik ef miðað er við lönd innan Evrópska Efnahagssvæðisins (EES). Hjá dýrum hefur notkun hérlendis hins vegar verið ein sú minnsta í Evrópu.

Í dag er birt ársskýrsla sóttvarnalæknis um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjaónæmi á Íslandi á árinu 2018. Þar kemur fram að heildarnotkun sýklalyfja minnkaði um 5% á milli áranna 2017 og 2018 en um 7% hjá börnum yngri en fimm ára. Hjá dýrum jókst notkun hins vegar um tæp 7%.

Til að árangur náist í að minnka og bæta notkun sýklalyfja þarf breið samstaða að nást um ýmsar aðgerðir á meðal lækna, annars heilbrigðisstarfsfólks og almennings. Á sl. tveimur árum hefur sóttvarnalæknir staðið fyrir átaki um bætta notkun sýklalyfja í samstarfi við Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. Það er því ánægjulegt að sjá að notkun minnkaði á árinu 2018 sem einkum stafaði af minni notkun breiðvirkra sýklalyfja.

Jafnframt er mikilvægt að almenningur hafi góðan skilning á réttri notkun sýklalyfja og þeirri hættu sem af sýklalyfjaónæmi stafar. Á árinu 2018 var gerð viðhorfskönnun á þekkingu almennings á Norðurlöndunum um rétta notkun sýklalyfja og alvarleika sýklalyfjaónæmis. Í ljós kom að almenningur á Norðurlöndum er vel upplýstur í þessum málaflokki og var þekking íslensks almennings síst verri en á hinum löndunum. Ætlunin er að endurtaka þessa rannsókn á árinu 2020.

Almennt hreinlæti, handþvottur og sýkingavarnir gegna einnig lykilhlutverki í baráttunni við dreifingu sýkla þ.m.t. sýklalyfjaónæmra baktería. Sóttvarnalæknir hefur látið útbúa fræðslumyndbönd um sýkingavarnir sem einkum eru ætluð heilbrigðisstarfsmönnum en eru einnig gagnleg almenningi.

Á næstunni verður gripið til margvíslegra aðgerða hér á landi til að stemma stigu við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis auk þeirra aðgerða sem að ofan er lýst. Til þess að árangur náist í þessari baráttu er nauðsynlegt að stjórnvöld, stofnanir, heilbrigðisstarfsmenn og almenningur vinni saman að nauðsynlegum aðgerðum. Annars mun baráttan ekki vinnast.

Sjá nánar:

Sóttvarnalæknir