Fara beint í efnið

1. nóvember 2023

Nýtt lyf til þyngdarstjórnunar er komið í greiðsluþátttöku

Greiðsluþátttaka er nú samþykkt í lyfinu Wegovy, sem er lyf ætlað til þyngdarstjórnunar, fyrir þau sem uppfylla tiltekin skilyrði í vinnureglu sem hefur verið gefin út.

Lyf - Sjúkratryggingar

Við setningu vinnureglunnar er meðal annars horft til gildandi reglna á Norðurlöndum. Finnar og Svíar eru ekki með greiðsluþátttöku í lyfinu. Í Danmörku og Noregi er svokölluð einstaklingsbundin greiðsluþátttaka, líkt og hér verður og með stöngum skilyrðum. Norðmenn lögðu heilsuhagfræðilegt mat (HTA) til grundvallar ákvörðun sinni og þótti lyfið of dýrt miðað við ávinninginn og er greiðsluþátttaka því almennt ekki veitt, undantekning eru þó gerð fyrir einstaklinga með BMI yfir 50 sem eru með alvarlega þyngdartengda sjúkdóma.

Íslendingar eru ofarlega á lista yfir þær þjóðir heims sem glíma við hvað mesta ofþyngd samkvæmt skýrslu OECD. Því var ákveðið að hafa lægri viðmið hér á landi en gilda annars staðar á Norðurlöndunum og veita þannig fleira fólki möguleika á að fá lyfið með greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga. Við gerð reglunnar var leitað ráðgjafar hjá okkar helstu sérfræðingum sem hafa sérhæft sig í meðferð á offitu sem komu með margar góðar ábendingar sem tekið var tillit til.

Þau nýmæli eru tekin upp við gerð reglunnar að umsókn skuli koma frá lækni sem einn liður í heildstæðri meðferð við offitu og að meðferðin sé veitt af þverfaglegu teymi sem sérhæfir sig í meðferð við offitu. Þetta er í samræmi við klínískar leiðbeiningar um meðferð fullorðinna einstaklinga með offitu sem birt er á vef Embættis landlæknis.

Geta má þess að vinnureglan fjallar um greiðsluþátttöku Sjúkratryggingar í lyfinu. Læknar geta eftir sem áður ávísað lyfinu sem að fólk greiðir sjálft.

Sjá regluna hér.